Leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað nokkuð það sem af er ári og nam árshækkun þess 6,9% í apríl síðastliðinn, samkvæmt Seðlabanka Íslands.
„Hækkunin skýrist að einhverju leyti af fjölgun innflytjenda og aukinni verðbólgu en til viðbótar hefur hlutfall fyrstu kaupenda lækkað frá því að það var hæst á fyrsta ársfjórðungi 2021. Því má ætla að yngra fólk hafi í auknum mæli leitað á leigumarkað á ný, einkum í kjölfar þess að lánþegaskilyrði voru hert í júní í fyrra,“ segir í peningastefnu Seðlabankans.
Búast við þreföldun innan tíðar
Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í gær hefur einstaklingum sem þurfa á búsetuúrræði að halda fjölgað mjög mikið undanfarið. Ástæðan er fjölgun umsækjenda um alþjóðlega vernd.
Samkvæmt tölfræði frá Vinnumálastofnun búa nú 2.000 einstaklingar í húsnæði sem stofnunin hefur útvegað þeim, en þeir voru 700 í júlí í fyrra.
Ef fram fer sem horfir má vænta þess að fjöldi fólks í húsnæði á vegum Vinnumálastofnunar verði þrefaldur innan tíðar, borið saman við júlí 2022.
Samkvæmt Seðlabankanum er hlutfall húsnæðis- og leiguverðs þó enn töluvert hátt í sögulegu samhengi, þótt það hafi lækkað nokkuð frá því í júlí í fyrra.
„Misvægið sem myndaðist milli íbúðaverðs og launa á tímum faraldursins virðist einnig hafa minnkað og svo virðist sem húsnæðisverð sé farið að þróast betur í takt við undirliggjandi efnahagslega grunnþætti.“
Umsvif á fasteignamarkaði jukust um mitt ár 2020 og náðu hámarki í byrjun árs 2021 enda höfðu vextir lækkað mikið, laun hækkað töluvert og verulegur óráðstafaður sparnaður byggst upp hjá heimilum í farsóttinni. Húsnæðisverð hækkaði því hratt á tímabilinu.
„Samhliða því að vaxtahækkunarferli Seðlabankans hófst um mitt ár 2021 tók að draga úr umsvifum á húsnæðismarkaði. Húsnæðisverð hækkaði þó enn frekar og fór árshækkunin mest í 25,5% á höfuðborgarsvæðinu í júlí í fyrra. Það skýrist líklega af miklu misræmi milli framboðs og eftirspurnar eftir húsnæði enda annaði sá fjöldi íbúða sem byggður var á árunum fyrir heimsfaraldurinn ekki aukinni eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði í kjölfar hans,“ segir í peningastefnu SÍ.
Í apríl 2022 voru eingöngu um 1.000 íbúðir á sölu á landinu öllu þegar þær voru fæstar og meðalsölutíminn mældist einungis um mánuður.
Framboðið jókst þó þegar það leið á árið sérstaklega vegna fjölgunar nýbygginga á sölu og minni umsvifa.
Í apríl á þessu ári voru um 3.200 íbúðir til sölu á landinu öllu og meðalsölutíminn því töluvert lengri eða 6 mánuðir. Árshækkun húsnæðisverðs hefur því heldur gefið eftir og var hún komin í 8,6% í apríl sl. sem felur í sér að raunverð húsnæðis er nú lægra en fyrir ári.
Seðlabankinn segir að framboð kann því að aukast enn frekar á næstu misserum og létta áfram á verðþrýstingi á markaðnum.
„Á sama tíma hefur hægt á eftirspurn eftir húsnæði í takt við hækkun vaxta og strangari lánþegaskilyrði. Horfur eru því á áframhaldandi hjöðnun árshækkunar húsnæðisverðs og að raunverð lækki út spátímann. Nokkur óvissa er þó um horfurnar en meiri fjölgun innflytjenda og aukin skammtímaleiga húsnæðis fyrir erlenda ferðamenn gæti sett meiri þrýsting á húsnæðisverð en nú er gert ráð fyrir.“