Leigu­verð á höfuð­borgar­svæðinu hefur hækkað nokkuð það sem af er ári og nam árs­hækkun þess 6,9% í apríl síðast­liðinn, sam­kvæmt Seðla­banka Ís­lands.

„Hækkunin skýrist að ein­hverju leyti af fjölgun inn­flytj­enda og aukinni verð­bólgu en til við­bótar hefur hlut­fall fyrstu kaup­enda lækkað frá því að það var hæst á fyrsta árs­fjórðungi 2021. Því má ætla að yngra fólk hafi í auknum mæli leitað á leigu­markað á ný, einkum í kjöl­far þess að lán­þega­skil­yrði voru hert í júní í fyrra,“ segir í peninga­stefnu Seðla­bankans.

Búast við þreföldun innan tíðar

Líkt og Við­skipta­blaðið greindi frá í gær hefur ein­stak­lingum sem þurfa á bú­setu­úr­ræði að halda fjölgað mjög mikið undan­farið. Á­stæðan er fjölgun um­sækj­enda um al­þjóð­lega vernd.

Sam­kvæmt töl­fræði frá Vinnu­mála­stofnun búa nú 2.000 ein­staklingar í hús­næði sem stofnunin hefur út­vegað þeim, en þeir voru 700 í júlí í fyrra.

Ef fram fer sem horfir má vænta þess að fjöldi fólks í hús­næði á vegum Vinnu­mála­stofnunar verði þre­faldur innan tíðar, borið saman við júlí 2022.

Sam­kvæmt Seðla­bankanum er hlut­fall hús­næðis- og leigu­verðs þó enn tölu­vert hátt í sögu­legu sam­hengi, þótt það hafi lækkað nokkuð frá því í júlí í fyrra.

„Mis­vægið sem myndaðist milli í­búða­verðs og launa á tímum far­aldursins virðist einnig hafa minnkað og svo virðist sem hús­næðis­verð sé farið að þróast betur í takt við undir­liggjandi efna­hags­lega grunn­þætti.“

Um­svif á fast­eigna­markaði jukust um mitt ár 2020 og náðu há­marki í byrjun árs 2021 enda höfðu vextir lækkað mikið, laun hækkað tölu­vert og veru­legur ó­ráð­stafaður sparnaður byggst upp hjá heimilum í far­sóttinni. Hús­næðis­verð hækkaði því hratt á tíma­bilinu.

„Sam­hliða því að vaxta­hækkunar­ferli Seðla­bankans hófst um mitt ár 2021 tók að draga úr um­svifum á hús­næðis­markaði. Hús­næðis­verð hækkaði þó enn frekar og fór árs­hækkunin mest í 25,5% á höfuð­borgar­svæðinu í júlí í fyrra. Það skýrist lík­lega af miklu mis­ræmi milli fram­boðs og eftir­spurnar eftir hús­næði enda annaði sá fjöldi í­búða sem byggður var á árunum fyrir heims­far­aldurinn ekki aukinni eftir­spurn eftir í­búðar­hús­næði í kjöl­far hans,“ segir í peninga­stefnu SÍ.

Í apríl 2022 voru ein­göngu um 1.000 í­búðir á sölu á landinu öllu þegar þær voru fæstar og meðal­sölu­tíminn mældist einungis um mánuður.

Fram­boðið jókst þó þegar það leið á árið sér­stak­lega vegna fjölgunar ný­bygginga á sölu og minni um­svifa.

Í apríl á þessu ári voru um 3.200 í­búðir til sölu á landinu öllu og meðal­sölu­tíminn því tölu­vert lengri eða 6 mánuðir. Árs­hækkun hús­næðis­verðs hefur því heldur gefið eftir og var hún komin í 8,6% í apríl sl. sem felur í sér að raun­verð hús­næðis er nú lægra en fyrir ári.

Seðla­bankinn segir að fram­boð kann því að aukast enn frekar á næstu misserum og létta á­fram á verð­þrýstingi á markaðnum.

„Á sama tíma hefur hægt á eftir­spurn eftir hús­næði í takt við hækkun vaxta og strangari lán­þega­skil­yrði. Horfur eru því á á­fram­haldandi hjöðnun árs­hækkunar hús­næðis­verðs og að raun­verð lækki út spá­tímann. Nokkur ó­vissa er þó um horfurnar en meiri fjölgun inn­flytj­enda og aukin skamm­tíma­leiga hús­næðis fyrir er­lenda ferða­menn gæti sett meiri þrýsting á hús­næðis­verð en nú er gert ráð fyrir.“