Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins segir að þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu [ESB] fari fram eigi síðar en árið 2027.

Jón Daníelsson hagfræðiprófessor segir að ef ákveðið verður að ganga inn í ESB árið 2027 yrði evran líklega ekki orðinn gjaldmiðill á Íslandi fyrr en 2042.

Á þessum fimmtán árum þarf m.a. að halda tvennar kosningar á Ísland um aðildina og að lokum sýna fram á að evran henti hagkerfinu með því að halda gengi krónunnar stöðugu gagnvart evrunni í mörg ár.

Jón bendir á að aðlögunarferlið, þegar gengi krónunnar er haldið stöðugu gagnvart evrunni, sé ekki sársaukalaust.

„Það að halda krónunni stöðugri gagnvart evru í gegnum þennan árafjölda þýðir að öllum líkindum háir vextir, a.m.k. í upphafi. Vextir eru ekkert annað en álag á áhættu og á meðan Ísland er áhættusamara en ESB hvað varðar gjaldmiðilinn, þá þurfa vextir að vera háir á aðlögunartímanum ef við ætlum að halda genginu stöðugu.“

„Ég fæ þá tilfinningu að umræðan á Íslandi sé þannig að það sé hægt að ganga inn í ESB og taka upp evruna einn, tveir og þrír, og öðlast lága vexti og stöðugleika á svipstundu. Þessi umræða virðist því miður ekki vera í tengslum við raunveruleikann,“ bætir Jón við.

Jaðarhagkerfin beri mestan kostnað

Seðlabanki Íslands gaf út rannsóknarritgerðina „Testing Optimal Monetary Policy in a Currency Union“ eftir Bjarna G. Einarsson, hagfræðing á sviði hagfræði og peningastefnu, í lok ágúst sl.

Niðurstöður ritgerðarinnar benda m.a. til þess að jaðarhagkerfi myntbandalagsins beri mestan kostnað við upptöku evru.

Í rannsóknarritgerðinni er kynnt aðferð til að meta hvort peningastefnuákvarðanir seðlabanka myntbandalags séu þær ákjósanlegustu. Ritgerðin leiddi í ljós þó nokkur frávik frá ákjósanlegustu ákvörðunum, sérstaklega þegar kemur að framsýnni leiðsögn og magnbundinni íhlutun [e. Quantitative easing].

Þó voru engin frávik hvað varðar ákvarðanir um stýrivexti. Þá fundust vísbendingar um misleitni [e. heterogeneity] þegar kæmi að ákjósanlegustu ákvörðun fyrir hvert land í myntbandalaginu fyrir sig miðað við ákjósanlegustu ákvörðun fyrir sambandið í heild. Einnig fundust mörg frávik frá ákjósanlegustu ákvörðun fyrir hvert land fyrir sig fyrir öll peningastefnuverkfæri.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í vikunni. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.