Hæstiréttur Íslands hefur dæmt Símann til þess að greiða 400 milljón króna stjórnvaldssekt vegna brota á sátt sem fjarskiptafélagið gerði við Samkeppniseftirlitið í tengslum við sölu á enska boltanum.
Tveir Hæstaréttardómarar skiluðu sératkvæði og vildu staðfesta dóm Landsréttar sem felldi sekt Samkeppniseftirlitsins úr gildi. Dómurinn hefur ekki enn verið birtur á vef Hæstaréttar og því liggja forsendur ekki fyrir að svo stöddu.
Samkeppniseftirlitið fór fyrst að skoða sýningarrétt á ensku úrvalsdeildinni þegar Skjár einn var með þann rétt tímabundið 2004 til 2007 en fram að því hafði eftirlitið ekki gert athugasemdir við sýningarréttinn.
Skjár Einn, þá dótturfélag Símans, var með sýningarréttinn og voru gerðar sáttir við Samkeppniseftirlitið.
Þegar Síminn eignast sýningarréttinn árið 2018 er aftur farið að reyna setja sérsta reglur um enska boltann en deilur Samkeppniseftirlitsins og Símans í kjölfarið eru í raun tvíþættar.
Samkeppniseftirlitið lagði 500 milljón króna sekt á Símann árið 2020 þar sem eftirlitið taldi Símann hafa brotið á ákvæðum tveggja sátta frá árinu 2015 sem Síminn og eftirlitið gerðu sín á milli m.a. um eignarhald á Mílu, samtvinnun á fjarskiptaþjónustu og þjónustu skjásins, svo dæmi séu tekin.
Héraðsdómur Reykjavíkur felldi stjórnvaldssektina úr gildi að öllu leyti en Samkeppniseftirlitið ákvað að áfrýja til Landsréttar sem staðfesti dóm héraðsdóms.
Samkeppniseftirlitið áfrýjaði málinu þá til Hæstaréttar sem líkt og fyrr segir klofnaði í afstöðu sinni en meirihlutinn dæmdi eftirlitinu í vil.