Hæstiréttur Ís­lands hefur dæmt Símann til þess að greiða 400 milljón króna stjórn­valds­sekt vegna brota á sátt sem fjar­skipta­félagið gerði við Sam­keppnis­eftir­litið í tengslum við sölu á enska boltanum.

Tveir Hæstaréttar­dómarar skiluðu sér­at­kvæði og vildu stað­festa dóm Lands­réttar sem felldi sekt Sam­keppnis­eftir­litsins úr gildi. Dómurinn hefur ekki enn verið birtur á vef Hæstaréttar og því liggja for­sendur ekki fyrir að svo stöddu.

Sam­keppnis­eftir­litið fór fyrst að skoða sýningarrétt á ensku úr­vals­deildinni þegar Skjár einn var með þann rétt tíma­bundið 2004 til 2007 en fram að því hafði eftir­litið ekki gert at­huga­semdir við sýningarréttinn.

Skjár Einn, þá dóttur­félag Símans, var með sýningarréttinn og voru gerðar sáttir við Sam­keppnis­eftir­litið.

Þegar Síminn eignast sýningarréttinn árið 2018 er aftur farið að reyna setja sér­sta reglur um enska boltann en deilur Sam­keppnis­eftir­litsins og Símans í kjölfarið eru í raun tvíþættar.

Sam­keppnis­eftir­litið lagði 500 milljón króna sekt á Símann árið 2020 þar sem eftir­litið taldi Símann hafa brotið á ákvæðum tveggja sátta frá árinu 2015 sem Síminn og eftir­litið gerðu sín á milli m.a. um eignar­hald á Mílu, sam­tvinnun á fjar­skiptaþjónustu og þjónustu skjásins, svo dæmi séu tekin.

Héraðs­dómur Reykja­víkur felldi stjórn­valds­sektina úr gildi að öllu leyti en Sam­keppnis­eftir­litið ákvað að áfrýja til Lands­réttar sem stað­festi dóm héraðs­dóms.

Samkeppniseftirlitið áfrýjaði málinu þá til Hæstaréttar sem líkt og fyrr segir klofnaði í afstöðu sinni en meirihlutinn dæmdi eftirlitinu í vil.