Fjármálaáætlanir William Ruto, forseta Keníu, hafa fengið á sig annað rothögg frá hæstarétti þar í landi sem úrskurðaði að fjárlögin frá 2023 hefðu verið gölluð og stönguðust á við stjórnarskrána.
Forsetinn neyddist fyrr í sumar til að draga umdeilt fjármálafrumvarp fyrir næsta ár til baka eftir mótmæli sem urðu 39 manns að bana.
Ríkisstjórn Keníu glímir við mikinn skuldavanda og hefur hún meðal annars hækkað skatta á almenna borgara og fyrirtæki sem búa nú þegar við háan framfærslukostnað. Nýjasta frumvarpið reyndist mjög óvinsælt en það hefði hækkað skatta á brauði um 16% og sett 25% skatt á matarolíu.
Innflutningsgjöld áttu þá einnig að hækka úr 2,5% í 3% og var bílaeigendum einnig gert að greiða árlegt gjald sem samsvaraði 2,5% af virði bílsins.
Ndindi Nyoro, formaður fjárlaganefndar keníska þingsins, segir í samtali við BBC að nýjasti úrskurðurinn gæti valdið verulegum fjárskorti og takmarkað getu ríkisstjórnarinnar til að sinna sínum málum.
„Ef þú horfir á bæði frumvörpin sem hafa nú fallið þá erum við að tala um samtals hálfa billjón skildinga (e. 3,8 milljarða dala) í tapaðar tekjur,“ segir Ndini.