Hæstiréttur hefur staðfest niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur um að ógilda virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar. Vísir greinir frá málinu en Hæstiréttur kvað upp dóm sinn nú fyrir skemmstu. Dómurinn hefur ekki verið birtur enn sem komið er.
Upprunalega var gert ráð fyrir gangsetningu Hvammsvirkjunar síðla árs 2029 en dómur Hæstaréttar leiðir til mikilla óvissu um framgang málsins.
Landsvirkjun fékk í september 2024 virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun en Héraðsdómur Reykjavíkur ákvað í janúar síðastliðnum að ógilda heimild Umhverfisstofnunar um breytingar á vatnshloti í Þjórsá og þar með ákvörðun Orkustofnunar um að veita Landsvirkjun leyfi til að reisa og reka Hvammsvirkjun.
Ellefu landeigendur höfðu höfðað mál til ógildingar á leyfi Fiskistofu og heimild Umhverfisstofnunar til breytingar á vatnshloti. Héraðsdómur féllst ekki á það að ógilda leyfi Fiskistofu en féllst á málatilbúnað er varðaði heimild til breytinga á vatnshloti.
Landsvirkjun ákvað í beinu framhaldi að áfrýja dóminum til Hæstaréttar, sem samþykkt var í febrúar en Landsvirkjun taldi dóminn í meginatriðum rangan.
„Hefði það verið ætlun löggjafans að lög um stjórn vatnamála skyldu standa í vegi fyrir nýjum vatnsaflsvirkjunum á Íslandi sem og öllum öðrum stærri framkvæmdum, s.s. brúargerð, flóðvarnargörðum, dýpkun hafna ofl. sem kunna að hafa áhrif á vatnshlot, hefði það verið ein stærsta pólitíska ákvörðun þess tíma. Hvergi sjást merki þess í skjölum eða umræðum á Alþingi á þeim tíma að löggjafinn hafi haft hug á að umbylta málum með þeim hætti,“ sagði í tilkynningu Landsvirkjunar á þeim tíma.
Frumvarp ráðherra samþykkt
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra lagði fyrr í febrúar fram frumvarp á Alþingi sem snýr að breytingum á raforkulögum og lögum um stjórn vatnamála. Frumvarpinu var ætlað að bregðast við niðurstöðu héraðsdóms í máli Hvammsvirkjunar en frumvarpið var samþykkt í síðasta mánuði.
Í greinargerð með frumvarpinu kom fram að niðurstaða héraðsdóms hafi byggt á því mati dómsins að ekki væri fyrir hendi viðhlítandi lagastoð í a-lið 1. mgr. 18. gr. laga um stjórn vatnamála til að heimila breytingu á vatnshloti vegna framkvæmda, þar á meðal vatnsaflsvirkjana. Afar mikilvægt væri að löggjöfin myndu kveða skýrt á um að heimila breytingu á vatnshloti vegna framkvæmda í þágu almannahagsmuna að undangengnu heildstæðu mati. Slíkt gæti verið forsenda markmiða um raforkuöryggi, orkuskipti, atvinnuuppbyggingu, byggðaþróun og annarra markmiða í almannaþágu.
„Túlkun stjórnvalda hefur verið sú að lög um stjórn vatnamála feli í sér lagaheimild til að heimila breytingu á vatnshloti vegna framkvæmda í þágu almannahagsmuna, en í ljósi fyrrgreindrar niðurstöðu dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-2457/2024 er nauðsynlegt að bregðast skjótt við með frumvarpi þessu og kveða skýrar á um þá heimild í lögum, m.a. til að tryggja einsleitni á Evrópska efnahagssvæðinu og til að tryggja að atvinnufyrirtæki á Íslandi sitji við sama borð og sambærileg starfsemi á Evrópska efnahagssvæðinu,“ segir í greinargerðinni.
Ráðuneytið lagði til við umhverfis- og samgöngunefnd eftir 2. umræðu að gerð yrði breyting á raforkulögum sem felur í sér Umhverfis- og orkustofnun yrði heimilt að veita bráðabirgða virkjunarheimild í sérstökum undantekningartilvikum, þegar brýn þörf er á að hefja eða halda áfram framkvæmd. Sú tillaga var samþykkt.