Hæstiréttur dæmdi í dag sjóðfélaga í sameignardeild Lífeyrissjóðs verzlunarmanna (LIVE) í óhag og staðfesti lögmæti breytinga á mánaðarlegum greiðslum eftir aldri.
Kjarni umræddra breytinga snýr að áunnum réttindum sjóðfélaga í sameignardeild sem voru umreiknuð þannig að mánaðarlegar greiðslur lækkuðu mismikið eftir aldri.
Héraðsdómur dæmdi sjóðsfélaganum í hag en Hæstiréttur hefur nú snúið við þeim dómi.
Samkvæmt LIVE var markmiðið að mæta hækkandi lífaldri sjóðfélaga þar sem spáð er að ævi yngri sjóðfélaga lengist meira en þeirra sem eldri eru.
Sjóðurinn var með breytingunum að bregðast við nýjum dánar- og eftirlifendatöflum, sem gefnar voru út af Félagi íslenskra tryggingastærðfræðinga og staðfestar af fjármála- og efnahagsráðherra í árslok 2021.
Í þeim er gert ráð fyrir að sérhver árgangur lifi lengur en árgangurinn á undan. Sé tekið mið af þessu lækka áunnin réttindi sjóðfélaga mismikið eftir aldri.
Greiðslum var dreift yfir lengra tímabil hjá yngri kynslóðum þar sem sjóðurinn gerir ráð fyrir að þær yngri lifi lengur en þær eldri.
Í raun voru breytingar með þeim hætti að þeir sem voru fæddir 1979 héldu sínum réttindum frá því sem áður var. Hinir yngri fengu hins vegar lækkun en þeir sem fæddir voru fyrir 1979 fengu hækkun.
Karlmaður fæddur 1982 fór í mál við LIVE vegna breytinganna.
Fjölskipaður héraðdsómur sagði í nóvember í fyrra að breytingarnar hefðu ekki lagastoð og að jafnfræðisreglan og meðalhófsreglan hafi verið brotnar
Í Héraðsdómi var fallist á aðalkröfu sjóðsfélagans um að fella breytinguna úr gildi í heild sinni sem var sögð fela í sér mismunun.
Það leiddi til þess að ekki var einungis bannað að skerða réttindi þeirra sem voru yngri heldur var einnig óheimilt að hækka réttindi þeirra sem voru eldri.
Dómur Hæstaréttar er fordæmisgefandi en auk LIVE fóru eftirfarandi lífeyrissjóðir sömu leið: Almenni, EFÍA, Festa, SL-lífeyrissjóður, Gildi og Lífeyrissjóður Vestmannaeyja.
Hæstiréttur féllst á málskotsbeiðni Live í febrúar og fór málinu því beint til Hæstaréttar án viðkomu í Landsrétti.