Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur staðfest lögmæti laga sem skikka ByteDance, kínverska móðurfélag TikTok, til að selja rekstur sinn í Bandaríkjunum úr félaginu.
Að öðrum kosti verður lokað á samfélagsmiðilinn á sunnudaginn, degi áður en Donald Trump forseti Bandaríkjanna tekur við embætti.
Samkvæmt Financial Times er TikTok með um 170 milljónir notenda í Bandaríkjunum.
Ef kaupandi finnst ekki í tæka tíð þurfa snjallforritaverslanir Google og Apple að fjarlægja forritið úr símanum.
Samkvæmt bandarískum fjölmiðlum ætlar Joe Biden sitjandi forseti ekki að framfylgja lögunum á síðasta embættisdegi á meðan Trump hefur lofað að „bjarga TikTok“ þegar hann tekur við embætti.
Þingmenn úr röðum bæði Demókrata og Repúblikana samþykktu bannið í fyrra en þingmenn óttast að kínverska ríkið geti nýtt sér forritið til að dreifa áróðri og njósna um notendur.
TikTok kærði málið alla leið til Hæstaréttar þar sem kínverska fyrirtækið taldi lögin brjóta á stjórnarskrárvörðum rétti manna til tjáningarfrelsis en hafði ekki erindi sem erfiði.