Hagstofa Íslands birti á dögunum gögn um hvernig viðskiptahagkerfinu vegnaði á síðasta ári. Gögnin byggja á rekstrar- og efnahagsyfirliti sem unnið var upp úr skattframtölum rekstraraðila.
Þar koma fram hvernig hinar ýmsu stærðir litu út hjá mismunandi atvinnugreinum og hver heildarstærð viðskiptahagkerfisins var.
Viðskiptablaðið hefur tekið saman sjö atvinnugreinar og borið saman hvernig greinunum gekk á árinu, samanborið við árin á undan. Greinarnar eru ferðaþjónusta, tækni- og hugverkaiðnaður, byggingargeirinn, stóriðjan, sjávarútvegur, smásala og fasteignaviðskipti. Þar að auki er fluggeirinn skoðaður, sem er undir ferðaþjónustu.
Ef við skoðum heildarlaunakostnað greinanna sjáum við að ferðaþjónusta trónir á toppnum með um 270 milljarða króna í launakostnað. Líklega er það vegna þess hve mörg fyrirtæki falla þar undir, en þar eru m.a. rekstur leigubíla, hótel og gistiheimili, flugfélög, veitingastaðir, kaffihús, krár og dansstaðir. Fast á hæla ferðaþjónustunnar kemur tækni- og hugverkaiðnaðurinn með launakostnað upp á 165 milljarða króna.
Ef við deilum launakostnaðinum á hvern launþega sjáum við að í sjávarútvegi og fiskeldi eru launþegarnir að meðaltali dýrastir. Þar nemur meðallaunakostnaður á hvern launþega á mánuði rétt tæpum 1,4 milljónum króna, þegar litið er til ársins 2023.
Upphæðin hefur hækkað jafnt og þétt á síðustu árum, var til að mynda um 965 þúsund krónur árið 2019, og hefur því hækkað um 44% á fjórum árum. Þess ber að geta að þegar átt er við einn launþega er ekki endilega átt við eitt stöðugildi.
Ef við höldum áfram að bera saman meðallaunakostnað á hvern launþega milli atvinnugreina sjáum við að fluggeirinn, tækni- og hugverkaiðnaður og stóriðjan eru ekki langt frá sjávarútvegi. Í öllum þessum greinum er meðallaunakostnaður á hvern launþega umfram milljón krónur á mánuði.
Í fluggeiranum var meðallaunakostnaður á hvern launþega rúmlega 1,3 milljónir króna á mánuði, í tækni- og hugverkaiðnaði rúmlega 1,2 milljónir króna og í stóriðju tæplega 1,2 milljónir króna. Til samanburðar voru regluleg laun að meðaltali 724 þúsund krónur á mánuði árið 2023, og miðgildið 719 þúsund krónur.
Á sama tíma hefur launakostnaðurinn ekki hækkað eins mikið í atvinnugreinum á borð við byggingargeirann og smásölu. Lægsta meðallaunakostnað á hvern launþega má finna í smásölu. Á síðasta ári kostaði það smásölufyrirtækin að meðaltali 640 þúsund krónur á mánuði að greiða laun eins launþega.
Nánar er fjallað um viðskiptahagkerfið á síðasta ári í Viðskiptablaðinu, sem kom út í síðustu viku. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.