Breytingum á sölufyrirkomulagi næsta Íslandsbankaútboðs er einkum ætlað að stuðla að auknum áhuga erlendra fagfjárfesta á þátttöku og bæta skilvirkni verðmyndunar. Þetta kemur fram í greinargerð frumvarps fjármálaráðherra.
Þar er gert grein fyrir athugasemdum söluaðila útboðsins sem telja að ef ráðist yrði í útboð á grundvelli gildandi laga um ráðstöfun eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka, án breytinga, væri viðbúið að verðmyndun verði afturhlaðin og óskilvirk.
Þá yrði eftirspurn meðal erlendra fagfjárfesta hugsanlega lítil þar sem þeir kunna að telja útfærslu laganna á skjön við markaðsvenju.
„Áhrifin á hagkvæmni yrðu jafnvel svo neikvæð að útboðið misfarist.“
Fjármálaráðuneytið birti frumvarpsdrög að breytingum á lögum um ráðstöfun eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka á föstudaginn. Umrædd lög voru sett í júlí 2024 en þau kveða á um að hlutur ríkisins í bankanum verði seldur í markaðssettu útboði eða útboðum.
Breytingarnar fela í sér að þriðju tilboðsbókinni, tilboðsbók C, er bætt við þær tvær sem fyrirhugaðar voru. Söluverð skal vera hið sama og í tilboðsbók B.
Tilboðsbók C er skilyrt við stóra eftirlitsskylda fagfjárfesta en í henni er tekið við tilboðum fyrir að lágmarki 300 milljónir króna í kjölfar markaðsþreifinga fyrir útboð. Þessir aðilar verða að uppfylla það skilyrði að samanlögð fjárhæð eigna þeirra í stýringu sé jafnvirði 70 milljarða króna eða hærra.
Fjárfestum í tilboðsbók C verður veitt óbeint vilyrði um skerf af úthlutun í útboðinu, séu þeir reiðubúnir að hækka tilboðsverð sitt til samræmis við niðurstöðu í tilboðsbók B þegar það liggur fyrir. Á móti kemur að tilboðsbækur A og B hafa forgang til úthlutunar á kostnað fjárfesta í tilboðsbók C.
Í tilkynningu ráðuneytisins segir að áform um markaðsþreifingar miði að því að fá stóra eftirsóknarverða fagfjárfesta að borðinu til að tryggja sem mesta eftirspurn í útboðinu. Ráðuneytið tilkynnti í gær að áfram sé unnið að undirbúningi útboðsins þrátt fyrir að Arion banki hafi lýst yfir áhuga á samrunaviðræðum.
Hefði bitnað á þátttöku erlendra fagfjárfesta
Unnið hefur verið að undirbúningi útboðsins í nokkra mánuði. Fjármálaráðuneytið ákvað síðasta sumar að ganga til samninga við þrjá aðila, Barclays, Citi og Kviku, um að vera umsjónaraðilar í hinu fyrirhugaða útboði. Þá samdi ráðuneytið við fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans um að vera sjálfstæður fjármálaráðgjafi til að veita ráðuneytinu ráðgjöf varðandi skipulagningu og yfirumsjón á útboðinu.
Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að ábendingar hafi borist um að núgildandi lög skapi áhættu á því að ríkinu takist ekki að ráðstafa eignarhlut sínum í Íslandsbanka „sökum þess að hlutlægni hafi verið forgangsraðað um of á kostnað hagkvæmni“.
Þá hafi komið fram sjónarmið þess efnis að fyrirkomulag gildandi laga um framkvæmd markaðssetts útboðs geti dregið „talsvert“ úr áhuga erlendra fagfjárfesta á þátttöku.
„Söluaðilar telja óbreytt fyrirkomulag líklegt til þess að bitna á þátttöku erlendra fagfjárfesta og skriðþunga eftirspurnar frá upphafi útboðs, en hvort tveggja er til þess fallið að stuðla að árangursríku og hagkvæmu útboði.“
Breytingarnar sem lagðar séu til miði að því að bæta úr þessu án þess að hrófla við fyrirsjáanleika og gagnsæi um þátttöku fjárfesta og framkvæmd hollensks útboðs í tilboðsbókum A og B.
Meðal áformaðra breytinga á lögunum eru að í stað núverandi ákvæðis um að útboð skuli „auglýst með tveggja daga fyrirvara hið minnsta með birtingu útboðslýsingar“ verði mælt fyrir um að útboð skuli „auglýst með birtingu útboðslýsingar og standa yfir í þrjá daga hið minnsta“.
Þá er lagt til að veitt verði svigrúm við úthlutun í tilboðsbók C, en ráðuneytið segir að lítið sem ekkert svigrúm til mats sé til staðar við ákvarðanatöku úthlutun í tilboðsbókum A og B eftir að efnt hefur verið til útboðsins.
Ráðuneytið segir að óhefðbundið sé að áskriftum sé úthlutað á grundvelli hlutlægra sjónarmiða eingöngu.
Gildandi lög kveði á um sjaldgæft fyrirkomulag
Í greinargerðinni segir að það fyrirkomulag um hollenskt útboð sem óbreytt lög fela í sér sé sjaldgæft í sambærilegum útboðum í Evrópu og Bandaríkjunum. Slík útboð innihaldi enga hvata fyrir fjárfesta til þess að koma snemma inn í ferlið og auka þannig skriðþunga eftirspurnar í upphafi útboðs.
Þau innihaldi þvert á móti hvata fyrir fjárfesta til að gera tilboð í lok útboðsins og draga þannig úr skriðþunga eftirspurnar og skilvirkni verðmyndunar.
„Hætt er við að verðmyndun verði afturhlaðin og óskilvirk. Viðbúið er að erfitt verði að fá erlenda fjárfesta að borðinu við þær aðstæður, enda er úthlutun sem er að öllu leyti vélræn óvenjulegt fyrirkomulag á þessum erlendu mörkuðum.“
Af hálfu söluaðila hafi komið fram að eftirspurn meðal erlendra fagfjárfesta í þessum aðstæðum yrði hugsanlega lítil þar sem þeir kunni að telja útfærslu laganna á skjön við markaðsvenju. „Áhrifin á hagkvæmni yrðu jafnvel svo neikvæð að útboðið misfarist.“
Jafnframt var talið að útfærsla gildandi laga um jafnræði kaupenda þyki standa því í vegi að kjölfestufjárfestar yrðu fengnir að borðinu í aðdraganda útboðsins. Í ljósi markmiðsins um hagkvæmni þyki ráðuneytinu rétt að tiltaka í lögunum að heimilt verði að nýta verkfæri á borð við markaðsþreifingar.