Torg, útgáfufélag Fréttablaðsins, DV og Hringbrautar, hefur hætt dreifingu á Fréttablaðinu inn á heimili á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Þetta kemur fram í frétt á vefsíðu Fréttablaðsins.
Fréttablaðið verður í stað aðgengilegt á yfir 120 stöðum á höfuðborgarsvæðinu, á Suðurnesjum, Árborg, Ölfusi, Akranesi, Borgarnesi og Akureyri. Félagið segir að þessi breytta dreifing tryggi snertiflöt við 85% landsmanna.
„Áfram verður unnið að frekari dreifingu blaðsins. Þá hefur sá fjöldi sem les blaðið daglega á rafrænu formi, ýmist í appi eða á pdf-formi, vaxið jafnt og þétt. Ekki er búist við að breytt dreifing muni hafa teljandi áhrif á lestur blaðsins,“ segir í fréttinni.
Jón Þórisson, forstjóri Torgs, segir að dreifing blaðs til tugþúsunda heimila sé óhemju kostnaðarsöm og að áætlaður kostnaður á þessu ári hefði orðið yfir einn milljarður króna. Hann bætir við að fullreynt hafi verið að breyta dreifingarsamningi við Póstdreifingu, sem dreift hefur Fréttablaðinu um árabil.
Þá hafi félagið haft vaxandi áhyggjur af því að dreifingarferlinu fylgi „óþarfa sóun“. Það sé í takti við vaxandi umhverfisvitund að lágmarka kolefnisspor í starfseminni.
„Í upphafi komust stofnendur Fréttablaðsins að þeirri niðurstöðu að dreifa yrði blaðinu í heimahús því hér á landi væri fjölförnum stöðum á borð við það sem menn þekkja frá öðrum löndum, ekki til að dreifa. Nú hafa ýmsar breytingar orðið á samfélagslegum háttum þannig að fjöldi fólks kemur oft í viku í verslanir stórmarkaða, verslanamiðstöðvar, þjónustustöðvar olíufélaga, sund- og íþróttamiðstöðvar og svo mætti lengi telja,“ segir Jón.