Bílaleigan Lotus Car Rental hagnaðist um 334 milljónir króna árið 2023, samanborið við 419 milljóna króna hagnað árið áður. Velta félagsins jókst um 70% milli ára, nam 1,7 milljörðum árið 2022 en var komin í 2,9 milljarða króna árið 2023. Bílafloti bílaleigunnar stækkaði milli ára, úr um 800 ökutækjum árið 2022 í 1300 ökutæki árið 2023
Rekstrarkostnaður nærri tvöfaldaðist þó á sama tíma og nam 2,2 milljörðum króna í fyrra, samanborið við tæplega 1,2 milljarða árið 2022. Í skýrslu stjórnar í ársreikningi félagsins kemur fram að hækkandi álögur á bifreiðar og hækkun skatta á vistvæn ökutæki hafi haft neikvæð áhrif á reksturinn.
„Vegur þar þyngst afnám undanþágu frá virðisaukaskattslögum sem gerði bílaleigum kleyft að leigja vistvæn ökutæki út án virðisaukaskatts, auk þess sem kílómetra skattur var settur á vistvæn ökutæki. Félagið hefur neyðst til þess að hætta alfarið við kaup á rafmagnsbílum þar sem ómögulegt hefur verið að velta auknum álögum yfir á viðskiptavini,“ segir í skýrslu stjórnar.
Þá hafi innkaupsverð bifreiða hækkað umtalsvert á síðustu þremur árum sem hafi haft þau áhrif að hlutfall afskrifta vegi þyngra en áður í rekstrinum. Þá hafi hækkandi vaxtagjöld sett svip sinn á reksturinn en stjórnendur binda þó vonir við að vextir taki að lækka á seinni hluta ársins.
Í skýrslu stjórnar segir enn fremur að ákveðnar blikur séu á lofti í ferðaþjónustu en gert sé ráð fyrir að fjöldi ferðamanna í ár verði svipaður og í fyrra. Eigið fé félagsins nam 651 milljón króna í lok árs 2023, skuldir námu 4,8 milljörðum og eignir 5,5 milljörðum.
Greint var frá því í lok árs 2022 að móðurfélag bílaumboðsins Öskju hefði keypt 80% hlut í félaginu en Lotus var þá í eigu Lotus Holding, sem var í 40% eigu stofnendanna Alexanders og Guðmundar Hlífars á móti 60% hlut Einibrekku, félags í eigu Jóns Axels Ólafssonar og Kristjáns Arnar Sigurðssonar.