Strætó hefur tekið þá ákvörðun hefur ákveðið að hætta akstri næturstrætó um helgar. Í tilkynningu segir að farþegafjölda í næturstrætó hafi ekki staðist væntingar. Í ljósi þessa og fjárhagsstöðu Strætó „samþykkti stjórn Strætó að ekki sé réttlætanlegt að halda áfram akstri næturstrætó um helgar“.

Stjórn Strætó samþykkti þann 4. júlí síðastliðinn að hefja akstur næturstrætó um helgar til reynslu út septembermánuð. Farþegafjöldi hverrar helgar var um 300 til 340 farþegar, að meðaltali 14 til 16 í hverri ferð „sem er talsvert undir ásættanlegum viðmiðum“.

Í sáttmála nýs meirihluta í borgarstjórn í vor var sérstaklega minnst á að „við ætlum að koma á næturstrætó“. Í stefnuskrá Framsóknar fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar kom fram að flokkurinn vildi endurvekja næturstrætó og hjá Pírötum stóð „komum aftur á næturstrætó“. Auk þess töluðu Samfylkingin og Viðreisn um að borgin myndi skoða næturstrætó og setja sér stefnu um „næturhagkerfið“.

Líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um er fjárhagsstaða Strætó slæm. Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, sagði að 1,5 milljarða króna þyrfti svo að Strætó verði sjálfbært með fjárfestingar. Stjórn Strætó brást nýlega við fjárhagsstöðunni með 12,5% hækkun gjaldskrárnar.