Helgi Jóhannesson, skiptastjóri Skagans 3X á Akranesi, segir í samtali við RÚV að tilraunir til að selja fyrirtækið í heilu lagi hafi ekki tekist sökum þess að ekki náðust samningar við eigendur fasteigna sem fyrirtækið er í.

„Þrátt fyrir mikla vinnu þá hefur ekki tekist að selja eignir þrotabúsins í heilu lagi. Og þeim tilraunum er nú hætt,“ er haft eftir Helga. „Og það mun þá ekki verða ræst sú starfsemi sem þarna var, því miður.“

Tilkynnt var þann 4. júlí síðastliðinn um að óskað hefði verið eftir að Baader Skaginn 3x á Akranesi yrði tekið til gjaldþrotaskipta.

Helgi hafði áður gefið það upp að tvö tilboð hefðu borist í einstakar eignir búsins og eitt tilboð í allt fyrirtækið auk fasteigna þar sem starfsemin hefur verið hýst en eru ekki í eigu þrotabúsins.