Stjórnendur nokkurra stórra bandarískra fyrirtækja hafa annaðhvort lækkað hagspár fyrirtækjanna eða sleppt því að birta þær vegna efnahagslegrar óvissu. Á vef BBC segir að tollastríð Donald Trumps hafi mikil áhrif á þessa þróun.
Tæknifyrirtækið Intel, skófyrirtækið Skechers og Procter & Gamble eru meðal þeirra sem hafa lækkað hagspár sínar eða sleppt því að birta þær.
David Zinsner, fjármálastjóri Intel, segir að sveiflukennd viðskiptastefna í Bandaríkjunum og víðar hafi aukið líkurnar á lægð sem gæti leitt til kreppu. Í símtali við fjárfesta bætti hann við að Intel muni að öllum líkindum standa frammi fyrir hækkandi kostnaði.
Hlutabréf Intel lækkuðu um 5% eftir þessi ummæli en gengi Skechers lækkaði líka eftir að fyrirtækið sleppti því að birta hagspá fyrir árið. Skechers, líkt og Nike, Adidas og Puma, notast við verksmiðjur í Asíu, aðallega í Kína, til að framleiða vörur sínar.
Trump hefur notast við tolla til að reyna að þvinga lönd til að gera nýja samninga við Bandaríkin. Hingað til hafa engir samningar verið tilkynntir en mögulegur samningur gæti náðst milli Bandaríkjanna og Suður-Kóreu.