Bæjarráð Vestmannaeyjabæjar hefur ákveðið að falla frá 690 milljóna króna sölu á ljósleiðarakerfi Eyglóar, eignarhaldsfélags bæjarfélagsins um ljósleiðaravæðingu í eyjum, til Mílu. Samrunatilkynning sem send var inn til Samkeppniseftirlitsins (SKE) hefur verið afturkölluð.
Stjórn Eyglóar taldi ekki unnt að búa við óvissu og tafir í tengslum við málsmeðferð SKE sem færði rannsókn sína á viðskiptunum í fasa II.
„Fyrir liggur að brýn þörf er á að halda áfram uppbyggingu á fjarskiptainnviðum í Vestmannaeyjum til að tryggja öllum íbúum aðgang að háhraðatengingum,“ segir í fundargerð bæjarráðs.
„Haldi samrunamálið áfram næstu mánuði í óvissu um hver endanleg niðurstaða samkeppnisyfirvalda verður, er ljóst að tafir munu verða á frekari uppbyggingu háhraða-tenginga í Vestmannaeyjum.“
Geti ekki framkvæmt á meðan rannsókn stendur yfir
Njáll Ragnarsson, stjórnarformaður Eyglóar, segir í samtali við Viðskiptablaðið að á meðan eftirlitið hefur málið til skoðunar þá geti félagið ekki haldið áfram framkvæmdum við að leggja ljósleiðara í hús og stækka kerfið.
Samkeppniseftirlitið tilkynnti samrunaaðilum á dögunum að rannsókn þess yrði sett í fasa II sem hefur í för með sér að málsmeðferðartími framlengist um allt að 90 virka daga. Samhliða óskaði eftirlitið eftir meiri gögnum frá Eygló og Mílu.
„Á meðan sú framhaldsrannsókn er í gangi þá getum við ekkert gert. Af þeirri ástæðu, er tekin ákvörðun um að draga þetta til baka og meta síðan næstu skref,“ segir Njáll.
Stofnað af illri nauðsyn
Eygló var stofnuð í mars 2022 með það að markmiði að tryggja öllum Eyjamönnum háhraða nettengingar þar sem ekkert þeirra fyrirtækja sem starfa í þeim geira ætlaði sér að ráðast í slíka fjárfestingu í Vestmannaeyjum á þeim tíma.
Bæjarfélagið hefur lýst því í gegnum tíðina að það hafi aldrei verið sjálfstætt markmið að standa sjálft fyrir slíkum framkvæmdum heldur hafi þetta í raun verið gert af illri nauðsyn því markaðsaðilar voru þá ekki reiðubúnir í þá fjárfestingu sem þurfti til að tryggja Eyjamönnum þessa þjónustu.
„Þegar Vestmannaeyjabær stofnaði félagið og fór að leggja ljósleiðara þá var alveg ljóst að við vorum búin að leita af okkur allan grun um að það væri ekkert fjarskiptafyrirtæki tilbúið til þess að koma og leggja ljósleiðarakerfi hér,“ segir Njáll.
Síðasta vor óskaði Míla eftir viðræðum um kaup á því kerfi sem Eygló var þá þegar komin langt með að byggja upp. Vestmannaeyjabær og stjórn Eyglóar tóku jákvætt í erindi Mílu og var kauptilboð Mílu upp á 690 milljónir króna - sem samsvaraði útlögum kostnaði við uppbyggingu kerfisins - samþykkt í ágúst síðastliðnum.
Við það tilefni sagði bæjarfélagið að uppbygging og rekstur á kerfi sem þessu sé kostnaðarsamur og vandasamur og ekki hluti af lögbundnu hlutverki sveitarfélaga. Samningurinn hefði þá þýðingu að sveitarfélagið gæti einbeitt sér að sínum verkefnum í stað þess að standa í kostnaðarsömum fjárfestingum og rekstri ljósleiðarakerfis.
Jafnframt var haft eftir forsvarsmönnum Mílu að þar á bæ væru menn stórhuga um að koma á enn betri nettengingu inn á heimili í Vestmannaeyjum.
Niðurstaðan vonbrigði
Aðspurður segir Njáll að það hafi komið á óvart að eftirlitið hygðist rannsaka málið frekar. Forsvarsmenn Eyglóar hafi ekki fundið fyrir mikilli samkeppni frá fjarskiptafélögum um að koma til Eyja og taka við rekstrinum á ljósleiðarakerfi félagsins.
„Auðvitað er rekstur á svona kerfi ekki hluti af lögbundnum hlutverkum sveitarfélaga. Þegar að stórt fjarskiptafyrirtæki eins og Míla loksins kemur og er tilbúið til þess að taka yfir þennan rekstur, og reka kerfið, þá náttúrulega vorum við ánægð með það. Þannig að já, það eru náttúrulega vonbrigði að málið skuli hafa farið svona.“
Hann segir að Eygló og bæjaryfirvöld séu nú að skoða næstu skref og meta hvaða kostir eru í stöðunni. Það jákvæða sem hann tekur frá málinu er að það hafi verið áhugi um að kaupa kerfið af bæjarfélaginu og byggja það upp enn frekar.
„Það hefur verið fullur áhugi á því að losa sveitarfélagið undan þessum rekstri og þessari ábyrgð - leysa þá til sín þessa fjárfestingu og nýta fjármagnið í önnur brýnni verkefni sem að sveitarfélagið á að sinna lögum samkvæmt,“ segir Njáll að lokum.
