Christian Bluhm, áhættustjóri svissneska bankans UBS, hefur sagt starfi sínu lausu hjá bankanum til að gerast atvinnuljósmyndari. Hann tilkynnti um þessa U-beygju á sínum starfsferli í gær.

Hann hyggst opna ljósmyndastúdíó og gallerí í miðbæ Zurich, skammt frá höfuðstöðvum UBS. Þjóðverjinn Bluhm, sem er stærðfræðingur að mennt, lætur af störfum í maí á næsta ári til að einbeita sér að ljósmyndaferlinum. Hann hefur þegar opnað heimasíðu þar sem meðal annars má sjá borgar-, náttúrulífs- og brúðarmyndir sem hann hefur tekið.

Mynd af Karlsvagninum breytti öllu

Á heimasíðunni segir Bluhm frá því að hann hafi kolfallið fyrir ljósmyndun eftir að vinur hans kenndi honum að taka skýra mynd af samstirninu Karlsvagninum á næturhimninum.

„Þessi reynsla heillaði mig svo mikið að ég hóf eilífðar ferðalag inn í heim atvinnuljósmyndunnar,“ segir m.a. á heimasíðu Bluhm.

Bluhm er þó ekki fyrsti hátt setti bankastarfsmaðurinn sem yfirgefur bankageirann til að gerast atvinnuljósmyndari. Matthew Greenburgh, fyrrum stjórnandi hjá Merrill Lynch, hætti störfum í bankageiranum árið 2010, þá 49 ára gamall, til að gerast atvinnuljósmyndari.

Bluhm hefur stýrt áhættusviði UBS frá árinu 2016. Á tíma sínum hjá bankanum hefur honum tekist að forða UBS frá því að flækjast í röð hneykslismála sem helsti keppinauturinn, Credit Suisse, hefur flækst í.

Damian Vogel, sem í dag sér um áhættustýringu á eignastýringarhluta UBS, mun leysa Bluhm af hólmi sem áhættustjóri bankans.