Peter Cancro, sem hefur gegnt stöðu forstjóra hjá bandarísku samlokukeðjunni Jersey Mike‘s í fimmtíu ár, hefur hætt störfum. Charlie Morrison, sem áður stýrði kjúklingakeðjunni Wingstop mun taka við forstjórastöðunni hjá samlokukeðjunni á mánudag. Morrison hyggst stækka Jersey Mike‘s enn frekar, sem nú telur um 3.000 staði, sérstaklega erlendis þar sem keðjan er lítt áberandi í dag.

„Það er gríðarlegt tækifæri fyrir Jersey Mike’s til vaxtar, ekki aðeins í Bandaríkjunum heldur um allan heim,“ er haft eftir honum í frétt Wall Street Journal um málið.

Eftir hálfa öld sem eini eigandi Jersey Mike’s, samþykkti Cancro í fyrra að selja keðjuna til fjárfestingarrisans Blackstone fyrir 8 milljarða dala. Salan er talin eitt stærsta kaup á veitingakeðju á meira en áratug, samkvæmt upplýsingum frá Dealogic.

Cancro sagði að hann myndi áfram gegna formennsku í núverandi sex manna stjórn fyrirtækisins, starfa með rekstraraðilum og móta stefnu fyrirtækisins sem 10% hluthafi.

Fram að síðasta ári gegndi Morrison stöðu forstjóra hjá bílalúgukeðjunni Salad and Go, sem Volt Investment Holdings á hlut í. Frá árinu 2012 til 2022 stýrði hann Wingstop, sem var í eigu fjárfestingarfyrirtækisins Roark Capital áður en það var skráð á markað árið 2015. Wingstop hefur vaxið hratt en samkvæmt markaðsrannsóknarfyrirtækinu Technomic jókst sala fyrirtækisins í Bandaríkjunum um 37% árið 2024 miðað við árið á undan.