Stjórn Eikar fasteignafélags og Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri, hafa komist að samkomulagi um starfslok hans hjá félaginu, að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Garðar Hannes mun stýra félaginu áfram sem forstjóri fram yfir aðalfund félagsins sem ráðgert er að halda þann 10. apríl næstkomandi.

„Ég er afar þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að byggja þetta framúrskarandi félag frá upphafi þess árið 2002, allt frá því að vera eini starfsmaður þess, upp í það að félagið varð eitt af stærstu félögum á Íslandi sem og elsta skráða fasteignafélagið á aðallista kauphallar,“ segir Garðar Hannes.

„Það er búið að vera stórkostleg reynsla að fá að stýra félaginu í gegnum lífshlaup þess, hvort sem það var í með- eða mótvindi. Á þessum tímamótum er ég afar stoltur af þeim árangri sem félagið hefur náð. Félagið hefur skilað hærri ávöxtun eiginfjár en meðaltal skráðra fasteignafélaga frá skráningu þess að teknu tilliti til arðgreiðslna sem hafa verið þær hæstu á markaðnum. Sú vegferð sem mörkuð hefur verið og félagið er nú á felur í sér áframhaldandi tækifæri bæði að teknu tilliti til aukins rekstrarhagnaðar og þróunarmöguleika, sem áætlað er að raungerist á næstu misserum.“

„Fyrir hönd stjórnar vil ég þakka Garðari Hannesi fyrir óeigingjarnt framlag til félagsins frá upphafi sem og fyrir árangursríkt og ánægjulegt samstarf. Mótun félagsins, uppbygging þess og áherslur, sem Garðar Hannes hefur leitt, hefur búið til öflugt arðgreiðslufélag sem hefur náð eftirtektarverðum árangri,” segir Bjarni K. Þorvarðarson, stjórnarformaður.

„Það er öllum félögum hollt að skoða endurnýjun á forystu þeirra með reglulegu millibili. Stjórn félagsins telur á þessum tímapunkti eðlilegt að endurnýjun eigi sér stað og þakkar Garðari Hannesi fyrir að breytingin sé gerð í sátt og með hagsmuni félagsins að leiðarljósi.“