Páll Harðarson lauk störfum hjá Nasdaq á síðastliðnu ári eftir rúmlega tveggja áratuga starf í lykilhlutverkum innan Kauphallar Íslands og Nasdaq.

Aðspurður hvað standi upp úr eftir tímann hjá Nasdaq segir Páll fólkið það helsta sem komi upp í hugann.

„Maður er lánsamur að hafa fengið að vinna með góðu fólki bæði hérlendis og erlendis, góðum manneskjum fyrst og fremst og ótrúlegu fagfólki.“

„Hvað starfsemina varðar, þá standa auðvitað upp úr þeir umbrotatímar sem voru í íslensku efnahagslífi árin fyrir fjármálahrunið. Kerfið varð síðan fyrir miklum skelli og stór hluti tíma míns hjá Nasdaq fór í að rífa upp markaðinn eftir það fall.

Þessi mótbyr í fyrstu, og svo vaxandi meðbyr eftir því sem leið á, var í heild sinni ofboðslega mikið verkefni. Með sameiginlegu átaki Kauphallarinnar, stjórnvalda, markaðsaðila og allra hagaðila hefur tekist mjög vel til,“ bætir Páll við.

Ferill Páls hjá Kauphöllinni hófst árið 2002 þegar hann tók við stöðu rekstrarstjóra og aðstoðarforstjóra. Hann var skipaður forstjóri Kauphallar Íslands árið 2011 í kjölfar andláts Þórðar Friðjónssonar, fyrrverandi forstjóra, eftir skammvinna baráttu við krabbamein. Gegndi Páll hlutverkinu til ársins 2019.

Árið 2019 tekur hann síðan við stöðu fjármálastjóra evrópskra markaða hjá Nasdaq.

„Þetta var auðvitað gríðarlega spennandi tækifæri að fá þetta starf hjá Nasdaq, fyrst í Evrópu og síðan Norður-Ameríku. Það kom svolítið óvænt upp þannig séð og var ekki endilega nátengt því sem ég hafði verið að gera áður.“

Seinna meir bætti Páll við sig Norður-Ameríkumarkaði og starfaði þannig sem fjármálastjóri markaðsviðskipta Nasdaq árin 2023-2024.

„Þetta var gríðarlega spennandi tækifæri og reyndist vera mjög skemmtileg lífsreynsla. Bandarískir markaðir bera auðvitað höfuð og herðar yfir aðra hlutabréfamarkaði í heiminum.“

„Markaðsvirði fyrirtækja á þessum mörkuðum er um og yfir 50% markaðvirði allra skráðra fyrirtækja á heimsvísu og það hefur verið einstaklega áhugavert að vinna í því umhverfi og með því fólki sem starfar þar í fararbroddi,“ bætir Páll við.

Fjölskyldan í fyrsta sæti

Aðspurður hvað taki við eftir rúmlega tveggja áratuga starf hjá Nasdaq, segist Páll nú vera að líta í kringum sig í rólegheitunum og kanna hvaða tækifæri gætu opnast.

„Þótt starf mitt hjá Nasdaq hafi verið gríðarlega gefandi og skemmtilegt, þá krafðist það mikilla ferðalaga og fjarvistar frá fjölskyldunni. Ákvörðunin um að hætta var tekin með það í huga að geta varið meiri tíma með fjölskyldunni.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í Viðskiptablaðinu sem kom út í vikunni. Áskrifendur geta nálgast greinina í heild sinni hér og annað efni úr blaðinu hér.