Einstakir atvinnurekendur og starfsfólk sem verkbann beinist gegn hafa ekki val, frekar en í tilviki verkfalla um það hvort hlíta skuli lögmætu verkbanni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samtökum atvinnulífsins.

Samtökin segja slíkt fela í sér brot á 18. grein vinnulöggjafarinnar.

„Túlkun Eflingar sem birtist á vef stéttarfélagsins 20. febrúar um að valkvætt sé að hlíta verkbanni og þar með verkfalli stenst því ekki skoðun og felur í sér þrýsting til brota á vinnulöggjöfinni.“

Þá segir SA að enginn sem starfar eftir kjarasamningum SA og Eflingar megi mæta til vinnu þegar um verkbann er að ræða, nema að fenginni undanþágu frá framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins. Launagreiðslur falli niður yfir tímabilið sem verkbann stendur yfir.

Aðildarfyrirtæki Samtaka atvinnulífsins samþykktu verkbann á félagsmenn Eflingar í gær. Um 94,7% þeirra sem kusu greiddu atkvæði með verkbanni og 3,3% greiddu atkvæði á móti.

Verkbannið tekur að óbreyttu gildi í næstu viku, fimmtudaginn 2. mars kl. 12:00, og er ótímabundið þar til samist hefur.