Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir ljóst að fjármálaáætlanir ríkis og sveitarfélaga séu komnar úr skorðum eftir að kjarasamningar kennara voru undirritaðir í gær.
Samningar voru undirritaðir skömmu fyrir klukkan hálf tólf í gærkvöldi. Nýi samningurinn gildir til fjögurra ára og felur í sér um 24% launahækkun. Hann segir að þrátt fyrir að talan hækki yfir fjögurra ára tímabil þá sé þetta mun „hraðari taktur“ en í öðrum kjarasamningum.
„Við höfum velt þessari tölu fyrir okkur eðlilega. Fyrstu áhrifin og áhrifin til skemmri tíma verða fyrst og fremst svolítið meiri einkaneysla og slakari opinber fjármál en ella hefði orðið,“ segir Jón Bjarki.
Að sögn Jóns Bjarka munu launahækkanirnar óhjákvæmilega ýta upp kaupmætti og auka einkaneyslu hjá 7% af fólki á vinnumarkaði sem eru undir í þessum samningum.
„Og það er í boði heldur slakari opinberra fjármála. Sveitarfélög og ríki hafa engin ráð til að fjármagna þennan viðbótarkostnað í bili,“ segir Jón Bjarki.
„Svo veltur á því hvort að hið opinbera geri skurk í því að fjármagna á móti. Þetta er klárlega til þess að breyta áætlunum á útgjaldahliðinni frá þeirri fjármálaáætlun sem er í gildi þangað til að ný verður lögð fram.“
Jón Bjarki segir að þetta ýti nokkuð meira á útgjaldahliðina en ef samningarnir hefðu verið í takti við samningana sem voru gerðir á hinum almenna markaði.
„Óvissan og sú áhættan sem maður er smeykur við að þetta skapi snýr fyrst og fremst að því hvað gerist þegar núverandi kjarasamningar renna út á almenna markaðinum,“ segir Jón Bjarki og bætir við að það gæti orðið hætta á höfrungahlaupi.
„Það er hætt við því að ef verðbólga verður þrálátari fyrir vikið og stéttir sem eru samanburðarhæfar við kennara á almenna markaðinum upplifi að þau hafi samið um lakari kjör og það verði ekki við unað að það sé orðinn það lítill launamunur milli opinbera og almenna geirans. Þá verður meiri þrýstingur á að sækja sambærilega launahækkun.“
Efasemdir um að dæmið gangi upp
Hann segir að almennt sé hafi stöðugleikasamningarnir verið góðir, þó að þeir hafi ekki verið fullkomnir og skapað meiri launaþrýsting heldur en heppilegt væri fyrir stöðugt verðlag.
„En þeir eru mun skárri hvað það varðar en þeir samningar sem við vorum með á undan. Það væri skaði af því ef við myndum glutra því tækifæri sem við höfum.“
„Ef þessi tilraun gengi upp, sem verkalýðsforystan hefur lagt áherslu á að þau vilji sjá stöðugra verðlag og lægra vaxtastig, þá væri vonandi í framhaldinu hægt að gera samninga sem væru í góðu samræmi við verðbólgumarkmið og það gengi allt saman upp. Ef það fer allt á hliðina þá er hætta á að við förum í gamla farið þar sem eru sóttar miklu meiri nafnlaunahækkanir en sem samrýmast stöðugu verðlagi og við fáum aftur það ástand sem við þekkjum frá fyrri tíð á Íslandi,“ segir Jón Bjarki.
Ný ríkisstjórn mun kynna sína fyrstu fjármálaætlun og stefnu nú á vormánuðum og segir Jón Bjarki að hann ætli að „leyfa þeim að njóta vafans hvort það gangi upp að hækka ekki skatta og álögur á stóru skattstofnana.“
„Nú reynir á það að fá fram einhverjar tölur sem ganga upp í þessu sambandi. Þetta hefur áhrif á það allt saman. Ég hef haft ákveðnar efasemdir um að þetta myndi allt ganga upp. Allt sem var í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og orðum helstu ráðherra um að stóru skattstofnarnir yrðu ekki hækkaðir samhliða fyrirheitum sem fela í sér alls kyns útgjaldaauka. Það þarf að standa við stóru orðin með það.“
„Það verður fróðlegt að sjá hvort það gangi upp eða hvort það verði enn lengri bið eftir jafnvægi í ríkisfjármálunum,“ segir Jón Bjarki að lokum.