Ríflega 3,1% hlutur í Kviku skipti um hendur í morgun í um 774 milljóna króna viðskiptum. Eftir viðskiptin hafa félög í eigu fjárfestanna Gunnars Sverris Harðarsonar og Þórarinn Arnar Sævarsson selt mest allan hlut sinn í Kviku samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. 65 milljónir hluta voru seldir á genginu 11,9 krónur á hlut.

Viðskiptafélagarnir Gunnar Sverrir og Þórarinn komu inn í hluthafahóp Kviku seint á árinu 2017. Þeir hafa verið með stærstu hluthöfum Kviku banka síðan þá. Í mars seldu þeir um 2,7% hlut í Kviku fyrir um 440 milljónir króna, samkvæmt frétt Fréttablaðsins , en fyrir söluna áttu þeir um 9,25% hlut í Kviku sem metinn var á vel á annan milljarð króna.

Í lok september var tilkynnt að félög tengd þeim hefðu selt sig undir 5% hlut í Kviku og ættu eftir viðskiptin 69,3 milljónir hluta, sem samsvaraði 3,34% eignarhlut í Kviku, ýmist beint eða í gegnum framvirka samninga

Kaupandi bréfanna í Kviku í mars var að mestu RES II, félag í eigu hjónanna Sigurðar Bollasonar og Nönnu Bjarkar Ásgrímsdóttur. RES II sem og félög í eigu Gunnars Sverris og Þórarins eru einnig meðal stærstu hluthafa í Skeljungi og fasteignaþróunarfélagsins Kaldalóns, sem varð til innan Kviku banka. Þórarinn á sæti í stjórn Skeljungs og er stjórnarformaður Kaldalóns.

Hlutabréf í Kviku hafa hækkað um 11% frá áramótum og um ríflega 25% undanfarið ár. Markaðsvirði Kviku stendur nú í um 24,5 milljörðum króna. Markasviðskipti Arion banka sáu um viðskiptin með bréf Kviku í morgun.