Erlendar netverslanir sem selja áfengi en halda vörubirgðum sínum á Íslandi eru núna um tíu talsins. Sumar eru smáar í sniðum og reknar af einstaklingum eins og Desma eða Ölföngum en aðrar eru á vegum fyrirtækja eins og Sante, Heimkaupa eða Costco.
Fyrr í þessum mánuði opnaði ný netverslun með áfengi á léninu veigar.eu en um er að ræða samstarf Hagar Wines og Hagkaups, þar sem fyrrnefnda félagið rekur netverslunina en Hagkaup annast tiltekna þjónustu, eins og tínslu af lager og afgreiðslu fyrir hönd Hagar Wines.
Finnur Oddsson, forstjóri Haga, segir eðlilegt að bregðast við augljósri samkeppni á dagvörumarkaði en tekur jafnframt fram að netverslun Haga Wines geri miklar kröfur til kaupenda til að gæta sjónarmiða um aðgengi og lýðheilsu.
Hann segir það engan vendipunkt að Hagar Wines, með stuðningi Hagkaups, ákvað að taka þátt í samkeppni á þessum markaði heldur urðu vatnaskil í áfengissölu í fyrra.
„Þá gengu dómar í nágrannalöndum sem skáru úr um lögmæti erlendrar netverslunar í umhverfi sem gerir ráð fyrir einkaleyfi ríkisins á áfengissölu. Á sama tíma hófu stórir aðilar á dagvörumarkaði hérlendis sölu á áfengi í netverslun sem hluta af sinni þjónustu. Að okkar mati hefur einnig ákveðið fordæmisgildi um lögmæti slíkrar starfsemi að hún hafi fyrir opnum tjöldum svo árum skipti án athugasemda frá yfirvöldum. Embættismenn, þar á meðal dómsmálaráðherra, létu síðan hafa það eftir sér að netverslun með þessu fyrirkomulagi væri lögleg,“ segir Finnur.
Hann segir það vera í þessum tíðaranda sem Hagar ákváðu að skoða forsendur fyrir að hefja rekstur á sambærilegri verslun í fyrra.
Finnur bendir á að samkeppnisaðili Hagkaups á Íslandi, Costco, sé þriðji stærsti smásali heims og velti um tífaldri þjóðarframleiðslu Íslands. Costco er jafnframt einn allra stærsti söluaðili áfengis í Bandaríkjunum með tilheyrandi heildsölusamninga og því þýðir lítið fyrir íslenskan rekstur að sitja hjá og bíða þegar samkeppnin er af slíkri stærðargráðu.
Þrátt fyrir að ríkisverslunin hafi kært aðrar netverslanir til lögreglu og sú rannsókn sé komin til ákæruvalds þá segir Finnur að samkvæmt þeirri ráðgjöf sem Hagar hafi sótt sér þá sé einsýnt að netverslun með áfengi líkt og er stunduð hér sé í samræmi við íslensk lög og evrópskt regluverk.
Rafræn skilríki staðfesta aldur
Þó að engin mælieining sé á samfélagslegu uppnámi virðist sem svo að ákvörðun Haga að stíga inn á þennan markað hafi valdið meiri upphlaupi en þegar Heimkaup og Costco gerðu slíkt hið sama. Spurður um þetta segist Finnur í raun fagna því að gerðar séu miklar kröfur til Haga og Hagkaups.
„Þetta sýnir að neytendur gera ríkar kröfur til okkar sem smásala og að við höfum samfélagslega mikilvægu hlutverki að gegna. Við erum sammála því að það sé full ástæða til þess að gera auknar kröfur til starfsemi eins og þessarar. Það er af þeim sökum sem við höfum sett strangar reglur og umgjörð um sölu og framsetningu áfengis, m.a. til að stuðla að ábyrgri kauphegðun og gæta að sjónarmiðum um lýðheilsu,“ segir Finnur og bætir við að það sé eingöngu hægt að kaupa áfengi í netverslun Hagar Wines eftir staðfestingu aldurs með rafrænum skilríkjum auk þess sem afgreiðslutími sé takmarkaður.
Áfengi verður jafnframt ekki til sýnis né í boði í hillum verslana Haga.
„Um leið og við erum að bregðast við augljósri samkeppni og verða við óskum kröfuharðra viðskiptavina um aukna og þægilegri þjónustu, þá setjum við strangari reglur um netverslun með áfengi en tíðkast hafa hérlendis.“ segir Finnur.