Davíð Torfi Ólafsson forstjóri Íslandshótela segist bjartsýnn fyrir árinu en að hann sé þó með báða fæturna á jörðinni.
„Greinin er að koma út úr heimsfaraldri og batinn gekk hraðar fyrir sig en við áttum von á. Við sjáum það að horfurnar fyrir árið eru góðar. Það eru þó blikur á lofti, löndin í kringum okkur eru að glíma við orkukrísu og það má lítið út af bregða.“
Það bar til tíðinda í byrjun vikunnar er varðar kjaramál starfsfólks Íslandshótela þegar samninganefnd Eflingar stéttarfélags samþykkti á fundi sínum verkfallsboðun sem tekur einungis til starfsstöðva Íslandshótela á félagssvæði Eflingar. Atkvæðagreiðslan opnaði á hádegi á þriðjudeginum síðastliðnum og stendur fram á mánudagskvöld 30. janúar.
Davíð segir framgöngu Eflingar bera þess merki að forystan hafi alltaf ætlað að fara í verkfall.
„Það er svolítið sérstakt að ætla að velja 284 manna hóp [hjá Íslandshótelum] til að kjósa um verkföll fyrir 20 þúsund manna stéttarfélag. Við styðjum kjarabaráttu en þá þarf upplýsingagjöfin að vera rétt og allar hliðar málsins að koma fram. Þegar starfsfólk okkar var boðað á fund á sunnudag vissu þau ekki að þau yrðu einu Eflingarmeðlimirnir á fundinum. Þá var ekki farið yfir það að þau yrðu á lægri launum í verkfalli samanborið við að vera í vinnunni og að þau missi alla afturvirkni ef þau samþykkja verkfall í stað samningsins sem önnur félög innan SGS hafa nú þegar samþykkt. Þetta hefur því verið einhliða upplýsingagjöf sem er ekki nógu gott.“
Davíð segir að ef komi til verkfalls til lengri tíma muni það reynast félaginu erfitt að stafrækja hótelin áfram. Hann er hins vegar bjartsýnn á það að starfsfólk Íslandshótela hafni verkfallsaðgerðunum og bætir við að réttast hefði verið að leyfa því að kjósa um SGS samninginn.
„Við höfum átt samtöl við okkar fólk sem er hjá Eflingu. Það er hissa yfir þessu og þeim finnst ósanngjarnt að vera sett í þessa stöðu. Það er okkar tilfinning að þau hefðu frekar viljað kjósa um SGS samninginn en um verkfall. Það langar engum í verkfall og ég tala nú ekki um þegar það skerðir kjör.“
Nú er ljóst að félagsmenn Eflingar munu fá að greiða atkvæði um SGS samninginn eftir að ríkissáttasemjari ákvað að leggja fram miðlunartillögu.
Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.