Hafliði Breiðfjörð og Magnús Már Einarsson hafa selt vefsíðuna Fótbolti.net til fimm knattspyrnuáhugamanna undir leiðsögn Mate Dalmay. Hafliði stofnaði vefsíðuna fyrir 23 árum og átti 95% hlut í henni á móti Magnúsi.
Vísir greinir jafnframt frá því að Mate, sem hefur starfað við auglýsingasölu hjá vefnum í fimmtán ár, verði framkvæmdastjóri og eignist meirihluta í félaginu.
Mate segir að kaupin tákni þá miklu trú sem hann hafi á vefsíðunni og að síðan sé mikilvægur miðill í íslensku íþróttalífi.
„Fótbolti.net hefur verið ómetanlegur vettvangur fyrir fótboltaáhugafólk á Íslandi. Við ætlum að halda áfram því góða starfi sem þegar hefur verið unnið, styðja við ritstjórnina og þróa miðilinn enn frekar með nýjum tæknilausnum og efni,“ segir Mate í samtali við Vísi.