Samherji segist hafa ekki hafa haft neinn áhuga á að höfða mál gegn listamanninum Oddi Eysteini Friðrikssyni, sem kallar sig Odee, vegna gjörningar hans sem fól í sér að hann skrifaði af­sök­un­ar­beiðni í nafni Sam­herja til Namib­íu og birti á bresku léni.

Samherji bauð Oddi að ljúka málinu utan dómstóla með því að afhenda útgerðarfélaginu lénið og gangast við því að endurtaka ekki brot sín. „Oddur hefur kosið að hafna því og taka til varnar í málinu,“ segir í tilkynningu á vef Samherja.

Safnað yfir milljón króna fyrir málskostnaðinn

Fjölmiðlar greindu frá því í júní að Oddur Eysteinn hefðu hafið söfn­un fyr­ir máls­kostnaði í máli sem Sam­herji höfðaði á hend­ur hon­um í Lund­úna­borg.

Hann fékk styrki upp á 2.900 pund, eða um 500 þúsund krónur, frá 72 aðilum á vefsíðunni CrowdJustice. Oddur Eysteinn hóf einnig söfnun á vefnum GoFundMe um þann 15. september og hefur þar safnað tæplega 58 þúsund norskum krónum, eða um 740 þúsund íslenskum krónum, á þeim vettvangi.

Vefsíðan, sem Oddur Eysteinn setti í loftið í maí sl., innihélt falska afsökunarbeiðni frá Samherja til Namibíu.

Sendi tilkynningu í nafni Samherja á hundrað fjölmiðla

Málið snýr að því að Oddur Eysteinn opnaði í maí síðastliðnum heimasíðu sem var vistuð í Bretlandi, í nafni og með myndmerki Samherja og dreifði fölskum fréttum í nafni félagsins‏‏. Skömmu síðar lýsti Oddur Eysteinn verkinu á hendur sér og sagði það hluta af listgjörningi.

„Misnotkunin á vörumerki Samherja náði til þriggja heimsálfa. Tilkynningar voru sendar til um 100 fjölmiðla á Íslandi, Noregi, Bandaríkjunum, Bretlandi, Kanada og Ástralíu,” segir í tilkynningu Samherja.

„Öllum má ljóst vera að þegar Oddur Eysteinn opnaði vefsíðu með léninu -samherji.co.uk- sem var eftirlíking af opinberri síðu Samherja, olli slíkt ruglingshættu bæði hjá almenningi og viðskiptavinum.”

Reyndi að hafa fé af Samherja

Samherji segir að ofangreind misnotkun á vörumerki félagsins hafi ekki einungis verið í listrænum tilgangi „því auk þess var reynt að hafa fé af Samherja með því að fela auglýsingastofu birtingu á auglýsingaefni af sama tagi gegn greiðslu frá Samherja“.

„Við slíkt er að sjálfsögðu ekki hægt að una og hefur ekkert með list eða tjáningarfrelsi að gera. Vörumerki Samherja hefur verið byggt upp á liðlega fjórum áratugum um allan heim og skylda félagsins er að verja lögbundið vörumerki félagsins.“

Samherji segist því hafa átt fárra kosta völ en að leita til dómstóla, sem séu hinn hefðbundni vettvangur til úrlausna deilumála.

„Samherji styður stjórnarskrárvarið tjáningarfrelsi listamanna og annarra og tekur enga afstöðu með eða á móti listaverkum einstakra aðila en hér var um að ræða víðtækt alvarlegt brot sem ekki var hægt að réttlæta með vísunum til listrænnar tjáningar.

Samherji hvetur til listrænna sköpunar og hefur haft það að samfélagslegu markmiði að styðja við listamenn í gegnum árin. Hvetur Samherji Odd Eysteinn til frekari verka en um leið að virða réttindi og störf annarra samborgara sinna samhliða listsköpun sinni.“