Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur sent frá sér tilkynningu þar sem því er haldið fram að hvorki Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra, né starfsmaður á hennar vegum hafi boðið eða gefið vilyrði um launahækkun til kennara.
„Að gefnu tilefni vekur mennta- og barnamálaráðuneytið athygli á því að ráðherra og ráðuneytið eru ekki aðilar að kjarasamningum kennara.“
Upplýst er hins vegar um að Ásthildur Lóa hafi ásamt Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra, Daða Má Kristóferssyni fjármálaráðherra og Heiðu Björg Hilmisdóttur, formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga, hitt forystu Kennarasambands Íslands á fundi fimmtudaginn 30. janúar.
Þar var meðal annars rætt um möguleika til að flýta virðismati starfa og aðgerðum í menntamálum.
Ráðuneytið segir kjaradeilu kennara hafa verið rædda í ríkisstjórn Íslands og að leitað hafi verið leiða til að liðka fyrir sátt í deilunni „svo sem með því að flýta virðismati starfa og/eða almennum aðgerðum í menntamálum“.
Þingflokksformenn stjórnarandstöðuflokkanna óskuðu í dag eftir svörum frá forsætisráðherra á meintum afskiptum Ásthildar Lóu eða starfsmanns á hennar vegum ákjaraviðræðum Kennarasambands Íslands við ríki og sveitarfélög.
Í fyrirspurn þeirra er spurt út í fregnir þess efnis að Ásthildur Lóa, eða starfsmaður á vegum ráðherra, hafi boðið tveggja prósentu launahækkun til viðbótar við það sem þá var á borðinu. Þetta hafi verið kostnaður sem ríkissjóður átti að taka á sig til einhvers tíma í þeim tilgangi að liðka fyrir deilunni.