Nokkur viðsnúningur varð á rekstri Hafnarfjarðarbæjar á síðasta ári, borið saman við árið 2021, samkvæmt ársuppgjöri síðasta árs. Bæjarfélagið (A- og B hluti) var rekið með 872 milljón króna afgangi en 1.433 milljón króna tap var á rekstrinum árið 2021. Mestu munar um auknar tekjur, en rekstrartekjur námu 42,6 milljörðum króna á árinu 2022 og rekstrargjöld voru 37,3 milljarðar króna. Samkvæmt áætlun var gert ráð fyrir 37,9 milljörðun króna í rekstrartekjur og 34,6 milljörðum í rekstrargjöld.
Afkoma bæjarsjóðs er ívið betri en áætlanir gerðu ráð fyrir og góður afgangur er af rekstrinum - Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar.
Skuldir lækka um 1,1 milljarð
Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir og fjármagnsliði var jákvæð um 5,3 milljarða króna. Seldar voru lóðir fyrir 7,4 milljarða króna og voru tekjufærðir 4,9 milljarðar vegna lóðasölu og 2,5 milljarðar til lækkunar á eignfærslum. Fjármagnsgjöld námu 3,0 milljörðum króna og voru liðlega 1,7 milljörðum umfram áætlun vegna neikvæðrar verðlags- og vaxtaþróunar miðað við upphaflegar forsendur. Hafnarfjarðarbær lækkaði skuldastöðu sína um 1,1 milljarð króna á árinu. Skuldaviðmið bæjarins lækkaði því úr 101% niður í 85%.
Íbúum fjölgaði um 766 eða 2,6%, úr 29.742 íbúum í 30.508 íbúa miðað við 1. desember 2021 og 2022.
Í Hafnarfirði á sér stað mikil uppbygging nýrra íbúða- og atvinnuhverfa sem kallar á mikla innviðauppbyggingu. Slíkur vöxtur er kostnaðarsamur til skamms tíma en mikilli fjölgun bæjarbúa og þúsundum nýrra starfa mun síðar fylgja umtalsverð tekjuaukning fyrir bæjarfélagið. Samhliða þessum mikla vexti þarf áfram að gæta aðhalds og tryggja sjálfbæran rekstur grunnþjónustu. Nú, þegar verðbólgan er komin á skrið, kemur sér vel að heildarskuldir sveitarfélagsins hafa lítið aukist að raunvirði frá árinu 2014 eins og skýrlega má sjá á sílækkandi skuldaviðmiði bæjarins. Því má segja að fjárhagur bæjarins sé sífellt að verða traustari,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar.