Hutchison Port Holdings, fyrirtækið sem rekur tvær hafnir sem liggja að Panamaskurðinum, hefur samþykkt að selja hluta sinn í höfnunum Balboa og Cristóbal til bandaríska fjárfestingafyrirtækisins BlackRock.
Fyrirtækið er dótturfélag CK Hutchison Holdings, sem er samsteypufélag í Hong Kong, og hefur rekið hafnirnar tvær síðan 1997.
Salan kemur eftir margra vikna kvartanir frá Donald Trump Bandaríkjaforseta um að skurðurinn sé undir stjórn Kínverja og að Bandaríkin ættu að endurheimta stjórn á þessari mikilvægu siglingaleið.
Félagið tilkynnti í dag að það myndi selja hlut sinn fyrir 22,8 milljarða dala en samningurinn felur einnig í sér sölu á 43 höfnum í 23 löndum um allan heim. Ríkisstjórn Panama á hins vegar enn eftir að samþykkja samninginn.
Panamaskurðurinn var byggður árið 1914 af Bandaríkjastjórn en var honum svo skilað aftur til Panama árið 1977 undir leiðsögn Jimmy Carter. Bandaríkin höfðu þó haft stjórn á skurðinum síðan 1903.
Árið 1989 réðust svo Bandaríkjamenn inn í Panama til að steypa þáverandi leiðtoga landsins, Manuel Noriega, af valdastóli og tíu árum síðar endurheimtu yfirvöld í Panama aftur fulla stjórn af skurðinum.
Rúmlega 14 þúsund skip sigla þar í gegn á hverju ári en frá október 2023 til september 2024 kom 21,4% af öllum varningi sem sigldi í gegnum skurðinn frá Kína. Það þýðir að Kína er næststærsti notandi skurðsins á eftir Bandaríkjunum.