Ís­lenska málm­leitarfélagið Amaroq Minerals birti í morgun niður­stöður úr vel heppnuðum rannsóknar­borunum í Nanoq, sem stað­sett er á Nanortalik-gull­beltinu í Suður-Græn­landi.

Sam­kvæmt Kaup­hallar­til­kynningu félagsins hafa boranir þessa árs, sem eru jafn­framt þær fyrstu sem félagið hefur fram­kvæmt í Nanoq, skilað sterkum niður­stöðum með háum styrk­leika gulls.

Að mati Amaroq undir­strikar niður­staðan mikla mögu­leika leyfisins ásamt því að styrkja stöðu félagsins enn frekar á þessu gull­leitar­svæði.

„Borunar­verk­efni þessa árs fólst í tveimur bor­holum sem boruðu sam­tals 133,1 metra í jörðu. Bor­holurnar voru stað­settar á ákveðinn hátt til að renna stoðum undir jarðfræðilíkan Amaroq af svæðinu sem og til að stað­festa magn málms í jörðu. Bor­holu­kjarninn fór í gegnum þrjú lög af háum styrk­leika gulls í kvars-æðum, meðal annars með tals­vert af sýni­legum gullögnum,” segir í Kaup­hallar­til­kynningu félagsins.

Félagið lauk um 133 metra rannsóknar­borunum í Nanoq-leyfinu nýverið en á svæðinu sem upp­haf­lega var upp­göt­vað af GEUS árið 1996 og endur­upp­göt­vað af Amaroq árið 2021.

Sam­kvæmt Amaroq gefa fyrstu niður­stöður vís­bendingu um mögu­leika Nanoq sem hágæða-gull­svæðis og er félagið að kanna hag­kvæmni þess að flytja efni frá Nanoq og til áfram­haldandi vinnslu í Nalunaq.

„Þessar niður­stöður marka mikilvægan áfanga í rannsóknum okkar í Græn­landi og stað­festa mikla mögu­leika Nanoq sem gull­vinnslu­svæðis og styður við skilning okkar á Nanortalik-gull­beltinu. Hið sýni­lega gull sem við sjáum í kjarnanum frá Nanoq er í ætt við þann háa styrk­leika gulls sem við þekkjum úr Nalunaq, og undir­strikar mögu­leika þess að finna gull í magni sem telja má í milljónum únsa.

Við horfum nú til þess að út­víkka rannsóknir okkar á svæðinu sem og að kanna hag­kvæmni þess að flytja efni frá Nanoq til áfram­haldandi vinnslu í nýreistu vinnslu­húsi okkar í Nalunaq. Sú að­gerð getur bæði í senn stað­fest mikla mögu­leika og efna­hags­legar for­sendur Nanoq sem og komið okkur í þá stöðu að auka fram­leiðslu og fjár­streymi með því að nýta og stækka vinnslu­getu núverandi inn­viða okkar,” segir Eldur Ólafs­son, for­stjóri Amaroq.