Íslenska málmleitarfélagið Amaroq Minerals birti í morgun niðurstöður úr vel heppnuðum rannsóknarborunum í Nanoq, sem staðsett er á Nanortalik-gullbeltinu í Suður-Grænlandi.
Samkvæmt Kauphallartilkynningu félagsins hafa boranir þessa árs, sem eru jafnframt þær fyrstu sem félagið hefur framkvæmt í Nanoq, skilað sterkum niðurstöðum með háum styrkleika gulls.
Að mati Amaroq undirstrikar niðurstaðan mikla möguleika leyfisins ásamt því að styrkja stöðu félagsins enn frekar á þessu gullleitarsvæði.
„Borunarverkefni þessa árs fólst í tveimur borholum sem boruðu samtals 133,1 metra í jörðu. Borholurnar voru staðsettar á ákveðinn hátt til að renna stoðum undir jarðfræðilíkan Amaroq af svæðinu sem og til að staðfesta magn málms í jörðu. Borholukjarninn fór í gegnum þrjú lög af háum styrkleika gulls í kvars-æðum, meðal annars með talsvert af sýnilegum gullögnum,” segir í Kauphallartilkynningu félagsins.
Félagið lauk um 133 metra rannsóknarborunum í Nanoq-leyfinu nýverið en á svæðinu sem upphaflega var uppgötvað af GEUS árið 1996 og enduruppgötvað af Amaroq árið 2021.
Samkvæmt Amaroq gefa fyrstu niðurstöður vísbendingu um möguleika Nanoq sem hágæða-gullsvæðis og er félagið að kanna hagkvæmni þess að flytja efni frá Nanoq og til áframhaldandi vinnslu í Nalunaq.
„Þessar niðurstöður marka mikilvægan áfanga í rannsóknum okkar í Grænlandi og staðfesta mikla möguleika Nanoq sem gullvinnslusvæðis og styður við skilning okkar á Nanortalik-gullbeltinu. Hið sýnilega gull sem við sjáum í kjarnanum frá Nanoq er í ætt við þann háa styrkleika gulls sem við þekkjum úr Nalunaq, og undirstrikar möguleika þess að finna gull í magni sem telja má í milljónum únsa.
Við horfum nú til þess að útvíkka rannsóknir okkar á svæðinu sem og að kanna hagkvæmni þess að flytja efni frá Nanoq til áframhaldandi vinnslu í nýreistu vinnsluhúsi okkar í Nalunaq. Sú aðgerð getur bæði í senn staðfest mikla möguleika og efnahagslegar forsendur Nanoq sem og komið okkur í þá stöðu að auka framleiðslu og fjárstreymi með því að nýta og stækka vinnslugetu núverandi innviða okkar,” segir Eldur Ólafsson, forstjóri Amaroq.