Hagar, móðurfélag Bónuss, Hagkaups og Olís, hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna byggingar græna atvinnuhúsnæðisins við Álfabakka 2a sem félagið verður leigutaki að.

Í yfirlýsingunni sem Finnur Oddsson, forstjóri Haga, undirritar segir að ljóst sé af umfjöllun síðustu daga og vikna að í undirbúningi þessarar framkvæmdar hafi orðið misbrestur á samstarfi byggingaraðila og eiganda húsnæðisins og Reykjavíkurborg. Ekki hafi nægilega verið gætt að nágrönnum, nálægð bygginga eða starfseminni.

„Það er afleitt. Hagar hafa lagt áherslu á að gagnsæi ríki um fyrirhugaða starfsemi í húsinu og gert skýra kröfu á byggingaraðila um að öll tilskilin leyfi fyrir starfsemi liggi fyrir.“

Telja eigendur hafa undirbúið framkvæmdir í fullu samráði við borgina

Borgarstjórn samþykkti á þriðjudaginn að fela innri endurskoðun borgarinnar að gera ítarlega tjórnsýsluúttekt á skipulagsferlinu er varðar Álfabakka 2a, Suður- Mjódd. Málið hefur vakið mikla athygli, ekki síst vegna nálægðar atvinnuhúsnæðisins við íbúðabyggð.

„Högum þykir miður að byggingin við Álfabakka 2 sem félagið hyggst leigja undir ákveðinn hluta starfseminnar valdi óþægindum fyrir nágranna og hefur fullan skilning á sjónarmiðum íbúa sem fram hafa komið eftir að byggingin reis. Hagar hafa ekki tekið þátt í umræðu um Álfabakka 2 hingað til þar sem félagið er hvorki eigandi byggingarinnar né hafa Hagar beina aðkomu að byggingu hússins.“

Aðkoma Haga að Álfabakka 2 er sú að félagið hefur gert leigusamning vegna byggingarinnar til nokkurra ára. Húsið er byggt af fyrirtækinu Álfabakki 2 ehf., sem er félag í jafnri eigu Klettás ehf. og Eignabyggðar ehf.

Hagar segja að eftir því sem næst verður komist hafa eigendur húsnæðisins undirbúið framkvæmdir við Álfabakka 2 og byggt í fullu samráði við Reykjavíkurborg, fengið öll tilskilin leyfi og að öllu leyti farið eftir þeim fyrirmælum og kröfum sem gildandi skipulag og byggingarheimildir kveða á um.

Hagar segjast taka viðbrögðum íbúa á svæðinu og umfjöllun um nýtt atvinnuhúsnæði sem félagið hyggst taka á leigu af mikilli alvöru. Félagið hafi treyst því að og gert kröfu um að eigendur hússins hafi í aðdraganda framkvæmdarinnar, og á meðan á henni hefur staðið, átt eðlilegt og gott samstarf við Reykjavíkurborg og ekki síður að Reykjavíkurborg hafi átt eðlilegt samráð við nágranna og aðra íbúa hverfisins. Ljóst sé hins vegar að misbrestur hafi orðið á þessu samstarfi.

Hagar segjast hafa m.a. óskað sérstaklega eftir því að byggingaraðili fengi samþykki skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar fyrir starfsemi kjötvinnslu í húsnæðinu, enda forsenda leigusamnings. Samþykkið hafi verið gefið út af skipulagsfulltrúa þann 10. janúar 2023.

„Sem væntanlegur leigutaki með atvinnurekstur í húsinu gera Hagar þá kröfu að þegar vandamál eins og þau sem fjallað hefur verið að undanförnu koma upp, þá verði hlutaðeigendur, þ.e. skipulags- og byggingaryfirvöld og eigendur hússins, að leita lausna þannig að allir sem hagsmuna eiga að gæta geti vel við unað.“

Skipulagsyfirvöld samþykkt ítarlegar teikningar

Í yfirlýsingunni benda Hagar á varðandi stærð mannvirkisins og frágang lóðar að samkvæmt gildandi deiliskipulagi var gert ráð fyrir að töluvert stærra hús yrði byggt á lóðinni, eða allt að 15.000 fermetrar að flatarmáli ofanjarðar. Eigendur hússins hafi hins vegar kosið að byggja umtalsvert minna hús eða ríflega 11.000 fermetra.

„Ekki fékkst leyfi til að minnka nýtingarhlutfall lóðarinnar og því þarf að greiða gjöld til Reykjavíkurborgar miðað við að byggingarheimildir væru fullnýttar, þ.e. miðað við þriðjungi stærra mannvirki en byggt hefur verið.“

„Varðandi frágang lóðar þá er eðlilegt að eigendur húss vinni hann í góðri sátt og samstarfi við yfirvöld og nágranna. Vert er að nefna að þessum frágangi er ekki lokið, en Hagar vita til þess að fyrir liggja ítarlegar teikningar á skjólveggjum við lóðarmörk, gróðri og lóð umhverfis Álfabakka 2, unnar að beiðni skipulags- og byggingaryfirvalda í Reykjavík og samþykktar af þeim.“

Yfirlýsingar kjörinna fulltrúa eru verulega á skjön við skipulag eða heimildir

Hagar segja að borgarbúar og atvinnurekendur eigi sjálfsagða kröfu um að vandað sé til ákvaðarna um skipulagsmál, að hægt sé að treysta þeim til lengri tíma og að umræða um skipulag og framkvæmdir sé fagleg og byggð á staðreyndum. Atvinnurekendur eigi mikið undir að svo sé enda séu skipulagsmál gjarnan forsenda ákvarðana er varða starfsemi fyrirtækja og krefjast verulegrar fjárfestingar og langs undirbúnings.

„Flutningur á starfsemi eins og til stendur hjá Högum er dæmi um slíka ákvörðun, langan undirbúning, töluverða fjárfestingu og samningsbundnar skuldbindingar. Í tengslum við málefni Álfabakka 2 og skipulag í Suður-Mjódd er það alvarlegt umhugsunarefni hvernig staðið hefur verið að skipulagsmálum og hvernig umræða um þau hefur oft og tíðum verið villandi eða efnislega röng.

Slík umræða, m.a. af hálfu kjörinna fulltrúa, er ekki við hæfi, og sérstaklega ekki þegar hún verður til þess að skapa óvissu fyrir íbúa og óvissu um starfsemi fyrirtækja sem veita mikilvæga þjónustu, skapa fjölda starfa og skatttekjur fyrir ríki og sveitarfélag. Sem væntanlegur leigutaki eiga Hagar að geta treyst því að ferli í tengslum við skipulag og úthlutun byggingarleyfa til handa eigenda byggingar við Álfabakka 2 hafi verið unnið samkvæmt lögum og rétt afgreidd af stofnunum Reykjavíkurborgar. Það telst í besta falli óheppilegt þegar yfirlýsingar kjörinna fulltrúa eru verulega á skjön við skipulag eða heimildir sem borgin sjálf hefur veitt.“

Hagar segja að lokum að innan þeirra marka sem hlutverk leigutaka setur, þá verður þess eins og alltaf sérstaklega gætt að starfsemi sé til fyrirmyndar, í góðri sátt við nánasta umhverfi og nágranna.