Endanlegur kaupsamningur vegna kaupa Haga á öllu hlutafé í færeyska verslunarfélaginu SMS var undirritaður í dag, en öll skilyrði vegna kaupanna hafa verið uppfyllt, þ.m.t. áreiðanleikakönnun og samþykki eftirlitsaðila í Færeyjum.

„Markmið kaupanna er að renna frekari stoðum undir og styrkja rekstur Haga á sviði dagvöruverslunar og auka skilvirkni rekstrar og vöruúrval SMS í Færeyjum,“ segir í tilkynningu Haga til Kauphallarinnar.

SMS rekur m.a. átta Bónus lágvöruverðsverslanir í Færeyjum, fjórar smærri verslanir í Þórshöfn undir nafninu Mylnan og stórverslunina Miklagarður í Þórshöfn. SMS er einnig umsvifamikið í annarri starfsemi, m.a. rekstri stærstu verslunarmiðstöðvar Færeyja, fjölda veitingastaða, smávöruverslana, brauð- og kökugerðar, kjötvinnslu og líkamsræktarstöðva. Að auki á félagið fasteignasafn sem telur um 11.000 fermetra.

Kaupverð (e. enterprise value) í viðskiptunum nam tæplega 467 milljónum danskra króna, eða yfir 9 milljörðum íslenskra króna, og virði hlutafjár tæplega 327 milljónum danskra króna, eða ríflega 6,3 milljörðum íslenskra króna.

Kaupverðið byggir m.a. á rekstri og áætlunum SMS fyrir rekstrarárið 2024, en tekjur félagsins í ár eru áætlaðar um 730 milljónir danskra króna, eða yfir 14 milljarða íslenskra króna, og hagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) um 63 milljónir danskra króna, eða ríflega 1,2 milljarðar íslenskra króna. Kaupverð byggir einnig á mati á fasteignasafni SMS.

Hagar greiða kaupverð með reiðufé að upphæð um 267 milljónir danskra króna, eða tæplega 5,2 milljarða íslenskra króna, og afhendingu 13.867.495 hluta í Högum að virði 60 milljónir danskra króna, eða tæplega 1,2 milljarða íslenskra króna. Meðalgengi á hlutum Haga í viðskiptunum var 85,23 krónur, sem byggir að stærstu leyti á dagslokagengi Haga þann 18. október.

Áréttað er að endanlegt uppgjör vegna kaupanna gæti breyst lítillega tengt rekstrarafkomu SMS á næstu 2-3 árum.

Miðað er við að uppgjörsdagur vegna kaupanna sé mánudagurinn 2. desember 2024 og mun P/F SMS því verða hluti af samstæðuuppgjöri Haga á síðasta fjórðungi rekstrarársins 2024/2025.

„Það er mér mikil ánægja að bjóða SMS í Færeyjum velkomin í Haga fjölskylduna. Við höfum á síðustu mánuðum kynnst starfsemi SMS vel, en fyrirtækið er bæði vel rekið og þjónar mikilvægu hlutverki í færeysku samfélagi. Áherslur í starfsemi SMS, m.a. á hagkvæmustu matarkörfuna og góða upplifun í verslunum, ríma vel við leiðarljós okkar hjá Högum. Við erum stolt af því að vera treyst fyrir eignarhaldi á SMS til framtíðar og munum styðja við áframhaldandi þróun og vöxt félagsins, Færeyingum til hagsbóta,” segir Finnur Oddsson, forstjóri Haga.

Niels Mortensen, sem hefur leitt uppbyggingu SMS undanfarna tvo áratugi, mun áfram leiða færeyska félagið sem forstjóri.

Ráðgjafar Haga í viðskiptunum voru Hamrar Capital Partners, BBA//Fjeldco og KPMG.