Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,2% í 6,2 milljarðs króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Nítján félög aðalmarkaðarins hækkuðu og sjö lækkuðu í viðskiptum dagsins.

Eimskip leiddi hækkanir en gengi hlutabréfa flutningafélagsins hækkaði um 4,4% í 240 milljóna króna veltu. Gengi Eimskips stendur nú í 332 krónum á hlut og er um 27% lægra en í upphafi árs. Það kann að hafa litað viðskipti með bréf félagsins að danski skiparisinn Maersk hækkaði afkomuspá sína í dag.

Hlutabréf Oculis hækkuðu um 3,8% í dag, samanborið við 9,8% hækkun í gær. Gengi Oculis hefur nú hækkað um þriðjung á einum mánuði. Augnlyfjaþróunarfélagið tilkynnti í gær um að það hefði hraðað innritunum þátttakenda í rannsóknum á lyfinu OCS-01.

Hlutabréfaverð smásölufyrirtækisins Haga hækkaði um 3,5% í 220 milljóna veltu í dag og endaði daginn í 88,5 krónum á hlut. Gengi Haga hefur aldrei verið hærra við lokun Kauphallarinnar.

Hagar tilkynnti fyrir opnun Kauphallarinnar í morgun um að samkomulag hefði náðst um kaup á færeyska félaginu SMS, sem rekur m.a. átta Bónus verslanir. Kaupverð (e. enterprise value) í fyrirhuguðum viðskiptum er áætlað um 467 milljónir danskra króna eða um 9,4 milljarðar íslenskra króna.

Flugfélögin lækka

Hlutabréfaverð Play lækkaði mest í dag eða um 5,3% í 4 milljóna króna viðskiptum. Gengi félagsins endaði daginn í 0,99 krónum á hlut og hefur aldrei verið lægra.

Hlutabréf félagsins hafa lækkað um 48% frá því að það greindi frá því á miðvikudaginn síðasta að rekstrarafkoma félagsins verði líklega verri en á síðasta ári.

Þá lækkaði hlutabréfaverð Icelandair um 3,4% í hátt í 200 milljóna króna veltu í dag. Gengi Icelandair stóð í 1,14 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar í dag. Flugfélagið mun birta uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung seinna í dag.