Smásölufyrirtækin Hagar og Festi hækkuðu mest á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Hlutabréfaverð Haga hækkaði um 3% í 229 milljóna veltu og stendur nú í 103 krónum á hlut. Gengi félagsins hefur aldrei verið hærra og hefur nú hækkað um tæplega 60% á einu ári.

Tilkynnt var í dag um að fjárfestingarfélagið Kaldbakur hefði keypt hlutabréf í Högum fyrir 400 milljónir króna og stækkað við hlut sinn í félaginu upp í 8,1%.

Þess má einnig geta að Hagar, móðurfélag Bónus, Hagkaups og Olís, tilkynntu eftir lokun markaða á miðvikudaginn síðasta um að félagið hefði gengið frá endanlegum kaupsamningi vegna kaupa á færeyska verslunarfélaginu SMS rekur m.a. átta Bónus lágvöruverðsverslanir í Færeyjum.

Hlutabréfaverð Festi hækkaði einnig um 2,1% í 342 milljóna veltu og stendur nú í 288 krónum og jafnar þar með fyrra met yfir dagslokagengi félagsins frá 19. nóvember síðastliðnum.

Auk Festi og Haga hækkuðu hlutabréf Símans, Reita og Skaga um eitt prósent eða meira.

Þrjú félög Kauphallarinnar lækkuðu um eitt prósent eða meira. Gengi Alvotech og Amaroq hækkaði um meira en eitt prósent og gengi hlutabréfa Oculis lækkuðu um 5,4% í tæplega 150 milljóna veltu.