Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,4% í 2,5 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Ellefu félög aðalmarkaðarins voru rauð og sex græn í viðskiptum dagsins. Smásölufyrirtækin Hagar og Festi leiddu lækkanir í Kauphöllinni en hlutabréfaverð beggja félaga lækkaði um meira en 3%.

Hagar, móðurfélag Bónuss, Hagkaups og Olís, birti uppgjör fyrir þriðja fjórðung fjárhagsársins 2022, sem lauk 30. nóvember sl. Afkoma Haga jókst frá fyrra ári, einkum vegna endurgreiðsla flutningsjöfnunargjalds, og nam 910 milljónum króna á fjórðungnum. Framlegðarhlutfall dróst hins vegar saman um 2,5 prósentustig frá sama tímabili í fyrra.

Auk Festi og Haga, þá lækkuðu hlutabréf Eimskips, Reita, Sýnar, VÍS og Icelandair um meira en 1% í dag.

Ölgerðin, sem birti einnig uppgjör eftir lokun markaða í gær, hækkaði um 1,4%, næst mest af félögum aðalmarkaðarins.

Ölgerðin hagnaðist um 574 milljónir frá september til nóvember síðastliðins. Í árshlutareikningi Ölgerðarinnar kom fram að endurákvörðun aðflutningsgjalda af innfluttri vörutegund sem Ölgerðin hafði fengið tollafgreidda á tímabilinu 2017-2022 hafi 292 milljóna neikvæð áhrif á eigið fé félagsins.

Alvotech hækkaði mest af félögum Kauphallarinnar eða um 4% í 54 milljóna króna viðskiptum. Gengi Alvotech stendur nú í 1.795 krónum á hlut.