Sam­kvæmt ný­birtu stjórn­enda­upp­gjöri Haga nam vöru­sala sam­stæðunnar 180,3 milljörðum króna á árinu og jókst um 4,1% frá fyrra ári.

Stjórn­enda­upp­gjörið hefur verið yfir­farið af stjórn félagsins, en er ekki endur­skoðað af endur­skoðendum sam­stæðunnar og inni­heldur ekki ófjár­hags­legar upp­lýsingar.

Fram­legðin hækkaði í 22,8% og nam 41,1 milljarði króna. EBITDA-hagnaður ársins nam 14,7 milljörðum króna, sem er 8,2% af veltu, og hagnaður eftir skatta nam 7,0 milljörðum króna, sem jafn­gildir 3,9% af veltu.

Aukin arð­semi og áhrif kaupa á SMS

Á síðasta árs­fjórðungi jókst hagnaður um­tals­vert og nam 3,1 milljarði króna saman­borið við 1,2 milljarða á sama tíma í fyrra.

Sam­kvæmt upp­gjörinu má mestan hluta þeirrar bættu af­komu rekja til kaupa Haga á SMS, sem hefur verið hluti af sam­stæðunni frá upp­hafi árs­fjórðungs, sem og bættrar af­komu Olís.

„Starf­semi Haga á síðasta árs­fjórðungi rekstrarársins 2024/25 gekk vel og var af­koma um­fram áætlanir. Rekstur P/F SMS í Færeyjum litar upp­gjör á fjórðungnum, en félagið varð hluti af sam­stæðu Haga þann 2. desember 2024. Vöru­sala nam alls 46.037 m.kr., sem er 7,6% aukning frá sama tíma­bili árið áður, en ef litið er fram hjá áhrifum af kaupum á SMS var sala svipuð á milli ára,“ segir Finnur Odd­son for­stjóri Haga í upp­gjörinu.

Grunn­hagnaður á hlut jókst um 41% og nam 6,47 krónum fyrir tólf mánuði saman­borið við 4,59 krónur í fyrra. Eigið fé félagsins stóð í 38,5 milljörðum króna við lok tíma­bilsins og eigin­fjár­hlut­fall mældist 36,6%.

„Við erum sátt með rekstur Haga á árinu, en árangurinn er til vitnis um að að­gerðir sem við höfum ráðist í á undan­förnum árum til að treysta undir­stöður og auka skil­virkni hafa borið árangur. Á sama tíma höfum við stigið fyrstu skref í þeirri stefnu að víkka út tekju­grunn félagsins og leita nýrra leiða til arðbærs vaxtar, m.a. með kaupum á SMS í Færeyjum í desember síðastliðnum,” segir Finnur.

Í að­draganda upp­gjörsins var ákveðið að breyta reiknings­skila­að­ferðum varðandi fjár­festingarfa­st­eignir.

Þær eru nú færðar til gang­virðis í stað af­skrifaðs kostnaðar­verðs, sem hefur marktæk áhrif á efna­hags­reikning sam­stæðunnar. Heildaráhrif þessarar breytingar námu 6,6 milljörðum króna, þar af var 1,0 milljarður færður sem ein­skiptisliður vegna SMS.

Breytt hegðun við­skipta­vina og sam­dráttur í elds­neytissölu

Þrátt fyrir vaxandi veltu fækkaði seldum stykkjum í dag­vöru­verslunum um 2,6% á síðasta árs­fjórðungi, þó að heimsóknum við­skipta­vina hafi fjölgað lítil­lega. Elds­neytis­sala dróst saman um 11,4%, einkum vegna minni eftir­spurnar frá stór­not­endum.

„Tekjur Olís námu 10 ma. kr. á fjórðungnum og drógust saman um 9% á milli ára. Af­koma styrktist mikið á milli fjórðunga og var tölu­vert um­fram áætlanir. Sam­drátt í tekjum má aðal­lega rekja til lækkunar á heims­markaðsverði olíu miðað við árið í fyrra en einnig fækkaði seldum lítrum til stór­not­enda á tíma­bilinu, þar sem mestu munar um sam­drátt í þotu­elds­neyti. Sala elds­neytis á smásölu­markaði var svipuð á milli ára en við­skipta­vinir hafa tekið vel í aukið þjónustu­fram­boð og bætta ásýnd stöðva,” segir Finnur.

„Tekjur í rekstri verslana og vöru­húsa á Ís­landi á fjórða árs­fjórðungi voru 32,8 ma. kr. og jukust um tæp­lega 3% frá sama tíma­bili á fyrra ári. Heimsóknum í verslanir fjölgaði en seldum stykkjum fækkaði, en eins og á þriðja árs­fjórðungi þá leikur breytt sam­setning vörukörfu og aukin áhersla Bónus á stærri og hag­kvæmari sölu­einingar hlut­verk hér og gerir saman­burð á seldum stykkjum á milli tíma­bila erfiðari. Hjá Bónus er sem fyrr lögð sér­stök áhersla á skil­virkni og árangur í inn­kaupum til að tryggja við­skipta­vinum sem hag­kvæmust kaup á dag­vöru,” segir Finnur.

Horfur fyrir næsta rekstrarár

Stjórn­endur gera ráð fyrir áfram­haldandi vexti og hærri af­komu á næsta ári. Af­komu­spá Haga fyrir rekstrarárið 2025/26 gerir ráð fyrir að EBITDA verði á bilinu 16 til 16,5 milljarðar króna.

Endan­legur og endur­skoðaður árs­reikningur Haga, með ófjár­hags­legum upp­lýsingum, verður birtur 30. apríl næst­komandi.