Samkvæmt nýbirtu stjórnendauppgjöri Haga nam vörusala samstæðunnar 180,3 milljörðum króna á árinu og jókst um 4,1% frá fyrra ári.
Stjórnendauppgjörið hefur verið yfirfarið af stjórn félagsins, en er ekki endurskoðað af endurskoðendum samstæðunnar og inniheldur ekki ófjárhagslegar upplýsingar.
Framlegðin hækkaði í 22,8% og nam 41,1 milljarði króna. EBITDA-hagnaður ársins nam 14,7 milljörðum króna, sem er 8,2% af veltu, og hagnaður eftir skatta nam 7,0 milljörðum króna, sem jafngildir 3,9% af veltu.
Aukin arðsemi og áhrif kaupa á SMS
Á síðasta ársfjórðungi jókst hagnaður umtalsvert og nam 3,1 milljarði króna samanborið við 1,2 milljarða á sama tíma í fyrra.
Samkvæmt uppgjörinu má mestan hluta þeirrar bættu afkomu rekja til kaupa Haga á SMS, sem hefur verið hluti af samstæðunni frá upphafi ársfjórðungs, sem og bættrar afkomu Olís.
„Starfsemi Haga á síðasta ársfjórðungi rekstrarársins 2024/25 gekk vel og var afkoma umfram áætlanir. Rekstur P/F SMS í Færeyjum litar uppgjör á fjórðungnum, en félagið varð hluti af samstæðu Haga þann 2. desember 2024. Vörusala nam alls 46.037 m.kr., sem er 7,6% aukning frá sama tímabili árið áður, en ef litið er fram hjá áhrifum af kaupum á SMS var sala svipuð á milli ára,“ segir Finnur Oddson forstjóri Haga í uppgjörinu.
Grunnhagnaður á hlut jókst um 41% og nam 6,47 krónum fyrir tólf mánuði samanborið við 4,59 krónur í fyrra. Eigið fé félagsins stóð í 38,5 milljörðum króna við lok tímabilsins og eiginfjárhlutfall mældist 36,6%.
„Við erum sátt með rekstur Haga á árinu, en árangurinn er til vitnis um að aðgerðir sem við höfum ráðist í á undanförnum árum til að treysta undirstöður og auka skilvirkni hafa borið árangur. Á sama tíma höfum við stigið fyrstu skref í þeirri stefnu að víkka út tekjugrunn félagsins og leita nýrra leiða til arðbærs vaxtar, m.a. með kaupum á SMS í Færeyjum í desember síðastliðnum,” segir Finnur.
Í aðdraganda uppgjörsins var ákveðið að breyta reikningsskilaaðferðum varðandi fjárfestingarfasteignir.
Þær eru nú færðar til gangvirðis í stað afskrifaðs kostnaðarverðs, sem hefur marktæk áhrif á efnahagsreikning samstæðunnar. Heildaráhrif þessarar breytingar námu 6,6 milljörðum króna, þar af var 1,0 milljarður færður sem einskiptisliður vegna SMS.
Breytt hegðun viðskiptavina og samdráttur í eldsneytissölu
Þrátt fyrir vaxandi veltu fækkaði seldum stykkjum í dagvöruverslunum um 2,6% á síðasta ársfjórðungi, þó að heimsóknum viðskiptavina hafi fjölgað lítillega. Eldsneytissala dróst saman um 11,4%, einkum vegna minni eftirspurnar frá stórnotendum.
„Tekjur Olís námu 10 ma. kr. á fjórðungnum og drógust saman um 9% á milli ára. Afkoma styrktist mikið á milli fjórðunga og var töluvert umfram áætlanir. Samdrátt í tekjum má aðallega rekja til lækkunar á heimsmarkaðsverði olíu miðað við árið í fyrra en einnig fækkaði seldum lítrum til stórnotenda á tímabilinu, þar sem mestu munar um samdrátt í þotueldsneyti. Sala eldsneytis á smásölumarkaði var svipuð á milli ára en viðskiptavinir hafa tekið vel í aukið þjónustuframboð og bætta ásýnd stöðva,” segir Finnur.
„Tekjur í rekstri verslana og vöruhúsa á Íslandi á fjórða ársfjórðungi voru 32,8 ma. kr. og jukust um tæplega 3% frá sama tímabili á fyrra ári. Heimsóknum í verslanir fjölgaði en seldum stykkjum fækkaði, en eins og á þriðja ársfjórðungi þá leikur breytt samsetning vörukörfu og aukin áhersla Bónus á stærri og hagkvæmari sölueiningar hlutverk hér og gerir samanburð á seldum stykkjum á milli tímabila erfiðari. Hjá Bónus er sem fyrr lögð sérstök áhersla á skilvirkni og árangur í innkaupum til að tryggja viðskiptavinum sem hagkvæmust kaup á dagvöru,” segir Finnur.
Horfur fyrir næsta rekstrarár
Stjórnendur gera ráð fyrir áframhaldandi vexti og hærri afkomu á næsta ári. Afkomuspá Haga fyrir rekstrarárið 2025/26 gerir ráð fyrir að EBITDA verði á bilinu 16 til 16,5 milljarðar króna.
Endanlegur og endurskoðaður ársreikningur Haga, með ófjárhagslegum upplýsingum, verður birtur 30. apríl næstkomandi.