Í fjárfestakynningu Haga sem birt var í tilefni af uppgjöri síðasta fjórðungs rekstrarárs samstæðunnar lýsir smásölufyrirtækið yfir að það leggi sérstaka áherslu um að innkaup sporni við verðhækkunum á aðföngum til verslana og styðji við forsendur kjarasamninga. Brýnasta hagsmunamál heimila og fyrirtækja sé að ná kjarasamningum sem stuðli að verðstöðugleika.
Nokkrir af forystumönnum breiðfylkingar verkalýðsfélaga í yfirstandandi kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins, þar á meðal Vilhjálmur Birgisson og Ragnar Þór Ingólfsson, hafa kallað eftir yfirlýsingum frá stórfyrirtækjum landsins um að þau muni stilla sínar verðlagshækkanir í hóf. Vilhjálmur sagði t.d. í viðtali við RÚV í gær að lítið hefði heyrst frá Festi og Högum.
„Verslanir Haga munu taka skýra afstöðu gagnvart verðhækkunum sem teljast umfram það sem innstæða er fyrir,“ segir í glæru í fjárfestakynningunni.
Margir dregið hækkunartilkynningar til baka
Hagar, móðurfélag Bónus, Hagkaups og Olís, segja í kynningunni að verðbreytingar í verslunum stýrast að mestu af verðbreytingum frá heildsölum og framleiðendum sem hafi margir boðað verðhækkanir um og upp úr áramótum.
Smásölufyrirtækið segir þó að forsendur hafi breyst mikið frá því að heildsalar og framleiðendur gerðu áætlanir á haustmánuðum fyrir árið 2024, sem ætti að hafa áhrif á fyrri ákvarðanir um verðhækkanir þeirra.
Í þessum efnum er minnst á að samtal aðila vinnumarkaðar að undanförnu gefi tilefni til bjartsýni um langtíma kjarasamninga sem stuðli að lækkandi verðbólgu.
„Í samtali Haga við birgja á undanförnum dögum hefur verið sýndur skilningur á breyttum aðstæðum og mikilvægi samstöðu um grundvöll kjarasamninga – margir samstarfsaðilar hafa þegar dregið hækkunartilkynningar til baka eða slegið af þeim.“
Hagar segja að í góðu samstarfi verslunar, heildsala og framleiðenda sé mögulegt að stuðla að lækkandi verðbólgu matvöru.
„Hagar leggja, í samstarfi sínu við birgja, ríka áherslu á að sporna við verðhækkunum og styðja þannig við forsendur kjarasamninga. Við teljum þetta raunar vera eitt okkar allra mikilvægasta verkefni í dag,“ segir Finnur Oddsson, í afkomutilkynningu Haga.
„Það er bót í máli að svo virðist sem heldur hafi hægt á verðhækkunum aðfanga til dagvöruverslunar í samanburði við síðasta ár, en vonir standa til að svo verði áfram.“
Ölgerðin lagt sitt af mörkum til kjaraviðræðna
Í afkomutilkynningu Ölgerðarinnar, sem var einnig birt eftir lokun Kauphallarinnar í dag, minnist forstjórinn Andri Þór Guðmundsson á kjaraviðræður og afstöðu drykkjarvöruframleiðandans til verðhækkana hjá birgjum.
„Ölgerðin hefur sem ætíð fyrr staðið fast gegn óhóflegum verðhækkunum og lagt sig fram um að vinna að betri samningum og hagstæðari innkaupum,“ segir Andri Þór.
„Það hefur m.a. leitt til þess að í stað áætlaðrar 4,9% hækkunar á óáfengum framleiðsluvörum um áramótin, gat Ölgerðin lagt sitt af mörkum til komandi kjaraviðræðna með aðeins 3,9% hækkun. Þá hefur hægt eitthvað á erlendum hækkunum, þó blikur séu enn á lofti.“
