Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands, sakar Gunnar Smára Egilsson, stofnanda Sósíalistaflokksins og ábyrgðarmann frétta hjá Samstöðinni, um síendurtekin rógburð gagnvart Starfsgreinasambandinu.

Ástæðan er færsla sem Gunnar Smári setti á Facebook í gær en þar sagði hann:

Pólitískt ofstopastríð Samtaka atvinnulífsins gegn láglaunafólki á líklega eftir að kosta fyrirtækin í landinu tugi milljarða á næstu dögum. Það myndi kosta þau um 6 milljarða að verða við kröfum Eflingar. Og rökin? Halldór Benjamín segist hafa lofað Vilhjálmi Birgissyni að semja ekki við Eflingu. Það sem rennur frá Samtökum atvinnulífsins er eins og óráðstal úr veikum manni. Mikill hiti, en ekkert vit.

Segir Gunnar Smára ata fólk auri

Vilhjálmur svaraði þessum skrifum Gunnars Smára í morgun þegar hann skrifaði hann m.a.:

„Ég spyr þig Gunnar Smári, hvað rekur þig til að halda fram þessum síendurtekna rógburði gagnvart 18 aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins? En í þessari „færslu“ skrifar þú orðrétt:

„Pólitískt ofstopastríð Samtaka atvinnulífsins gegn láglaunafólki á líklega eftir að kosta fyrirtækin í landinu tugi milljarða á næstu dögum. Það myndi kosta þau um 6 milljarða að verða við kröfum Eflingar.

Og rökin? Halldór Benjamín segist hafa lofað Vilhjálmi Birgissyni að semja ekki við Eflingu.“

Svona rógburður eins og þú ástundar með þessari frétt á ekki við rök að styðjast og er engum til gagns.

Þessum ásökunum hef ég ítrekað svarað fyrir hönd SGS en nú gengur þú lengra og heldur því fram að ég persónulega hafi tekið loforð af SA um að ekki yrði samið við Eflingu.

Þú vílar ekki fyrir þér að ata fólk auri og ástunda rógburð og haga þér eins og versti mykjudreifari með skrifum þínum.

Við í samninganefnd SGS vorum ekki að velta fyrir okkur hvað önnur stéttarfélög kynnu að semja um þegar við gengum frá okkar kjarasamningi.

Efling vildi hvorki semja né vera í samfloti með SGS eða öðrum sem voru í því samfloti, og er það þeirra réttur, sem ég virði algerlega.

Allir sem eitthvað þekkja til kjarasamningsgerðar vita að svona rógburður eins og þú ástundar með þessari frétt á ekki við rök að styðjast og er engum til gagns."

Var Efling að troða Lífskjarasamningnum ofan í kok á iðnaðarmönnum með því að semja á undan þeim?

Í þessu sambandi telur Vilhjálmur mikilvægt að rifja upp lífskjarasamningana sem Efling tók þátt í að gera með Starfsgreinasambandinu og VR árið 2019.

„Þar var, eins og áður hefur komið fram, samflot allra félaganna, nema iðnaðarmannafélaganna, RSÍ og Samiðnar. Allir aðilar skrifuðu undir Lífskjarasamninginn, en iðnaðarmannafélögin áttu þá eftir að semja í kjölfarið.

Hvað gerðist hjá þeim?! Jú, þeir þurftu að skrifa undir nákvæmlega það sama og Lífskjarasamningurinn kvað á um. Með öðrum orðum, þeir fengu ekkert meira en það sem Efling, VR og SGS höfðu áður samið um í Lífskjarasamningnum.

Iðnaðarmannafélögin reyndu í rúman mánuð að fá meiri kjarabætur en Lífskjarasamningurinn kvað á um. Enda var samið um krónutöluhækkanir og þeir sem tóku laun eftir kauptöxtum fengu ekki bara meira hlutfallslega, heldur einnig hærri krónutölu en stór hluti iðnaðarmanna, enda tekur stór hópur iðnaðarmanna ekki laun eftir kauptöxtum!

Ætlar þú að halda því fram að Efling hafi tekið loforð af Samtökum atvinnulífsins þess efnis að iðnaðarmannafélögin mættu alls ekki fá meira en Lífskjarasamningurinn kvað á um? Tók Efling samningsréttinn af iðnaðarmannafélögunum með því að semja á undan þeim eins og þú og fleiri eruð að saka okkur í SGS um að hafa gert vegna þess að við sömdum á undan Eflingu sem vildi ekki semja nema ein og sér? Var Efling að troða Lífskjarasamningnum ofan í kok á iðnaðarmönnum með því að semja á undan þeim?"

Málftuningur sem er til skammar

Því næst rifjar Vilhjálmur upp hvað forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins sögðu við iðnaðarmenn árið 2019 þegar lífskjarasamningarnir höfðu verið undirritaðir:

„Jú, Samtök atvinnulífsins sögðu nákvæmlega það sama við iðnaðarmannafélögin og þau segja núna! „Við erum búin að semja við Eflingu, VR og SGS og munum ekki semja um meira en samið var við þessi félög, þetta er línan sem lögð hefur verið á hinum almenna vinnumarkaði”

Já, taktu eftir Gunnar Smári, þetta sögðu Samtök atvinnulífsins við iðnaðarmannafélögin árið 2019 sem er nákvæmlega það sama og þau segja við Eflingu núna. Svo kemur þú fram enn og aftur með þennan rógburð, sem er þér til skammar!

Það er einnig rétt að rifja upp að Lífskjarasamningurinn sem Efling, VR og SGS gerðu árið 2019 var algert viðmið í öllum kjarasamningum sem gerðir voru við aðra, bæði á opinbera vinnumarkaðnum og almenna vinnumarkaðnum."

Sólveig Anna Jónsdóttir, Vilhjálmur Birgisson og Ragnar Þór Ingólfsson við undirritun Lífskjarasamninganna vorið 2019.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Vilhjálmur segir að í ljósi þess að Gunnar Smári ástundi rógburð í garð 18 aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins sé rétt aði rifja upp að eitt félag hafi samið „út fyrir línuna“ í Lífskjarasamningunum en það hafi verið BHM. Því næst spyr hann hver hafi gagnrýnt það harðlega?

„Jú, það var formaður Eflingar sem það gerði en orðrétt hefur hún skrifað um það atriði:

„Það vakti þannig enga almenna hneykslan þegar Þórunn Sveinbjarnardóttir formaður BHM samdi í skjóli nætur við fjármálaráðuneytið um að byggja inn sérstaka sveigju í launatöflur bandalagsins til að tryggja að hækkanir Lífskjarasamningsins myndu umbreytast í prósentuhækkanir hjá hærra launuðum ríkisstarfsmönnum. Var líkt og fjármálaráðuneytið og BHM hefðu skyndilega gleymt því að Lífskjarasamningarnir gerðu ráð fyrir krónutöluhækkunum.”

Mun ekki elta ólar við skítkastið

Vilhjálmur segir merkilegt að sitja undir því að Starfsgreinasambandið hafi „gert eitthvað loforð um að ekki yrði samið við Eflingu þegar það var Efling sem var ósátt við að ekki væri farið í hvívetna eftir Lífskjarasamningnum hjá aðildarfélögum innan BHM árið 2019.“

„Það er hinsvegar rétt að árétta að það hefur alltaf verið vitað að Samtök atvinnulífsins hafa ætíð haft það fyrir skýra vinnureglu að þegar þau semja við stóra hópa á íslenskum vinnumarkaði þá sé það sú lína sem þeir munu fara eftir í þeim samningum sem á eftir koma. Það hefur ekkert með stéttarfélögin að gera enda er það alfarið ákvörðun SA.

Ég frábið mér að þurfa að svara fleiri rangfærslum, rógburði og öðrum ósannindum sem spretta úr þessari átt!

Ég mun ekki elta ólar við skítkastið sem mun halda áfram þar sem sannleikurinn er algert aukaatriði enda sumir snillingar í að kynda undir rógburð og hinar ýmsu samsæriskenningar!"