Skilað hefur verið inn samrunatilkynningu vegna fyrirhugaðs samruna Fagkaupa og Hagblikks ehf., sem sérhæfir sig í málmsmíði ásamt innflutningi og sölu á efni og tækjum til loftræstikerfa og húsbygginga, til Samkeppniseftirlitsins.

Hagblikk er að mestu í eigu Sævars Kristjánssonar blikksmíðameistarans og forstjóra félagsins. Fyrirtækið var stofnað árið 1977 af föður Sævars.

Velta Hagblikks nam 367 milljónum króna árið 2020 og jókst um 27% frá fyrra ári, samkvæmt síðasta ársreikningi sem félagið skilaði inn til Skattsins. Hagnaður félagsins nam tæpum 30 milljónum og dróst saman um tíu milljónir á milli ára, sem má einkum rekja til aukinnar vörunotkunar. Eignir Hagblikks voru bókfærðar á 223 milljónir í árslok 2020 og eigið fé nam 104 milljónum.

Fagkaup, sem er í eigu Boga Þórs Siguroddssonar og Lindu Bjarkar Ólafsdóttur, er samstæða utan um félögin Johan Rönning, Áltak, Vatn og veitur, Sindra og S. Guðjónsson.

Viðskiptablaðið sagði nýlega frá því að samruni Fagkaupa og heildverslunarinnar Ísleifs Jónssonar hefði verið samþykktur af Samkeppniseftirlitinu. Fagkaup festi einnig kaup á KH vinnufötum, sem sérhæfir sig í sölu og þjónustu tengdum vinnufatnaði, á síðasta ári.