Hagvöxtur á lokafjórðungi síðasta árs var 0,6% samkvæmt nýbirtum bráðabirgðatölum Hagstofunnar en samkvæmt greiningardeild Íslandsbanka er það minnsti hagvöxtur frá því hagkerfið fór á annað borð að rétta úr kútnum á vordögum árið 2021.
Samdráttur varð í einkaneyslu, fjárfestingu og útflutningi þjónustu milli ára.
Helsta ástæða þess að ekki mældist samdráttur á fjórðungnum var snarpur samdráttur í innflutningi.
„Svo snarpur hefur samdráttur innflutnings ekki verið í nærri þrjú ár og skýrist samdrátturinn bæði af hjaðnandi innlendri eftirspurn og minni aðfangaþörf útflutningsgreina,“ skrifar Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka.
Að hans mati áttu sér stað hálfgerð hamskipti í hagkerfinu í fyrra.
Hagvöxtur mældist tæp 9% á fyrsta ársfjórðungi enda var þá þjónustuútflutningur, einkaneysla og fjárfesting enn að vaxa myndarlega.
Með hverjum fjórðungi dró svo úr vextinum jafnt og þétt eftir því sem vöxtur neyslu og fjárfestingar snerist í samdrátt og verulega hægði á útflutningsvexti.
Þá dró verulega úr fjárfestingu í fyrra en 0,6% samdráttur mældist í fjármunamyndun á síðasta ári og enn er undirliggjandi sagan hin sama um verulegan viðsnúning innan árs.
„Á það sér í lagi við um fjárfestingu atvinnuvega, sem vegur þyngra í þjóðhagsreikningum en fjárfesting hins opinbera og íbúðafjárfesting samanlagt. Á upphafsfjórðungi ársins óx fjármunamyndun atvinnuvega um tæp 10% í magni mælt, en á lokafjórðungi ársins var staðan orðin 15% samdráttur. Á heildina litið óx fjárfesting atvinnuvega um tæpa prósentu í fyrra,“ skrifar Jón Bjarki.
Þróun íbúðafjárfestingar var hins vegar öfug við fjárfestingu atvinnuvega.
„Þar mældist tæplega 8% samdráttur í upphafi síðasta árs en á lokafjórðungi ársins var vöxturinn ríflega 9%. Er það fagnaðarefni eftir viðvarandi skort á nýbyggingum á markað misserin á undan og endurspeglast ekki síst í betra jafnvægi á íbúðamarkaði undanfarna fjórðunga eftir hraða hækkun íbúðaverðs fyrr á áratugnum. Á árinu í heild var íbúðafjárfesting nánast óbreytt frá árinu 2022,“ skrifar Jón Bjarki.
Einkaneysla dróst saman undir lok árs
Þá dró fjárfesting hins opinbera saman um ríflega 6% í fyrra en samkvæmt bankanum er sá liður gjarnan býsna sveiflukenndur milli einstakra fjórðunga.
Einnig var viðsnúningur í einkaneyslu á seinni hluta ársins en einkaneysla er einn stærsti undirliður þjóðhagsreikninga.
„Þannig óx einkaneyslan um tæp 5% á upphafsfjórðungi síðasta árs. Á þriðja fjórðungi hafði einkaneysluvöxturinn hins vegar snúist í samdrátt og enn bætti í samdráttinn á lokafjórðungi ársins þegar hann mældist ríflega 2%. Á heildina litið óx einkaneysla um hálfa prósentu í fyrra. Að faraldursárinu 2020 slepptu hefur einkaneysla ekki vaxið hægar frá árinu 2010.”