Fjórir bandarískir kennarar frá Cornell-háskóla í Iowa urðu fyrir stunguárás í gær á meðan þeir voru að heimsækja almenningsgarð í borginni Jilin í norðausturhluta Kína. Kínverska utanríkisráðuneytið hefur staðfest að atvikið átti sér stað og að málið sé nú í rannsókn.
Slíkar árásir eru mjög sjaldgæfar í Kína en árásir gegn útlendingum af þessu tagi hafa þó átt sér stað áður fyrr. Árásin átti sér stað í Beishan Park en garðurinn er mjög vinsæll meðal heimamanna í Jilin.
Viðbrögð almennings á samfélagsmiðlum í Kína hafa einnig vakið upp óhug þar sem netverjar hafa annaðhvort hæðst að fórnarlömbunum eða bendla árásina við þjóðerni kennaranna.
Samkvæmt fréttaflutningi New York Times var enginn alvarlega særður í árásinni en myndbönd fóru fljótlega í dreifingu á samfélagsmiðlum sem sýndu kennarana liggjandi á jörðu í garðinum.
Kennararnir störfuðu allir í Kína en Cornell University er með samstarf við Beihua-háskólann í Jilin.
Viðkvæmur tími
Árásin gerist á viðkvæmum tíma fyrir Kína en stjórnvöld hafa verið að reyna að laða fleiri erlenda ferðamenn til landsins eftir að hafa aflétt ferðatakmörkunum í kjölfar heimsfaraldurs.
Bandaríkin og Kína hafa einnig leitast við að bæta samskipti sín en þjóðirnar hafa eldað grátt silfur hvor við aðra undanfarin ár. Ríkisstjórnir beggja landa hafa deilt yfir Taívan, Suður-Kínahaf og eru um þessar mundir í fullu viðskiptastríði.
Xi Jinping forseti Kína hefur til að mynda nýlega kynnt áætlun um að bjóða 50 þúsund ungum Bandaríkjamönnum til Kína á næstu fimm árum.
Ríkismiðlar í Kína hafa ekki viljað tala um árásina en netverjar á Weibo, kínversku útgáfunni af Twitter (X), hafa verið duglegir að fjalla um málið. Sumir lýsa yfir áhyggjum af árásinni og hvaða áhrif hún gæti haft á ímynd landsins.
Aðrir hafa hins vegar hæðst að fórnarlömbunum en ein kona sagði að Bandaríkjamenn væru augljóslega ekki eins sterkir án skotvopna sinna. Annar notandi segist ekki hafa neina samúð með fórnarlömbunum þar sem þau væru Bandaríkjamenn.
Sagan endurtekur sig
Hu Xijing, fyrrum ritstjóri þjóðernissinnaða kínverska dagblaðsins Global Times, skrifaði á samfélagsmiðlum í dag að hann vonaðist til að atvikið myndi ekki hafa neikvæð áhrif á samskipti ríkjanna og að Kínverjar væru „vanalega mjög vinalegir“ gagnvart útlendingum á ferðamannastöðum. Hann hefur síðan þá eytt færslunni.
Kína er með mjög lága glæpatíðni og eru fréttir sem þessar afar sjaldgæfar. Árásin er hins vegar ekki sú fyrsta sem árás gerist á grundvelli þjóðernis.
Árið 2015 var ráðist á franskan ríkisborgara og kínverska eiginkonu hans í Sanlitun-hverfinu í Peking með sverði. Maðurinn særðist í árásinni en kona hans lést síðar af sárum sínum. Samkvæmt tímaritinu That‘s Beijing réðst maðurinn á parið vegna þess að eiginmaðurinn var útlendingur.
„Þau höfðu aldrei séð þennan mann áður. Hann gekk upp að þeim og byrjaði að öskra á þau og sagðist hata Bandaríkjamenn. Romain (franski maðurinn) talar fullkomna kínversku og reyndi að róa manninn og sagði honum að hann væri ekki bandarískur, heldur franskur,“ segir vinur mannsins í viðtali.
Maðurinn dró síðan upp samurai-sverð og réðst á parið þegar þau reyndu að ganga í burtu.
Svipaðar umræður mynduðust á samfélagsmiðlum eftir þá árás og sagði einn á Weibo að árásin hefði verið hryllileg en að það mætti heldur ekki gleyma árásinni á Yuanmingyuan-höllina. Þar var netverjinn að vísa til sumarhallarinnar í Peking sem var eyðilögð af franska og breska hernum í ópíumstríðinu árið 1860.
Þjóðernishyggja
Þegar Alþjóðlegi hafréttardómstóllinn í Hamburg kvað upp dóm sinn varðandi tilkallið sem kínverska ríkisstjórnin gerir í Suður-Kínahafi árið 2016 komu einnig hörð viðbrögð frá Kínverjum.
Almenningur virtist hafa litið á ákvörðun dómstólsins sem árás á þjóðina og blossaði þá upp mikil þjóðernishyggja, oft með fremur skondnum og furðulegum liðum.
Kínverjar kenndu Bandaríkjamönnum það hvernig fór og birtu myndir af sér brjótandi iPhone-síma og stóðu fyrir utan KFC að mótmæla Bandaríkjunum. Í borginni Dalian var maður nokkur kallaður svikari og barinn um borð í lest fyrir það eitt að ganga í Nike-skóm.
Slík viðbrögð koma ekki á óvart þegar saga Kína er skoðuð en mikið af þessum tilfinningum eiga sér rætur að rekja til kínverskrar sögu frekar en andúðar á útlendingum. Í rúmlega hundrað ár upplifði Kína eitthvað sem kallast öld niðurlægingarinnar þar sem erlendir herir hertóku landið, gerðu þjóðina að nýlendu og neyddu Kínverja til að skrifa undir ósanngjarna samninga.
Óvinir en samt vinir
Þessar sjaldgæfu uppákomur eru engu að síður fréttnæmar að því leytinu til að ríkisstjórnin hefur undanfarna áratugi dansað viðkvæman línudans þar sem hún vill bæði tryggja sér stöðu sína í gegnum þjóðernishyggju og á sama tíma eiga góð samskipti við ríki heimsins fyrir áframhaldandi efnahagsgróða.
Kína er enn að ná sér eftir Covid-aðgerðirnar sem frystu nánast allt hagkerfið í þrjú ár og hafa yfirvöld reynt að laða til sín erlenda fjárfestingu á tímum fasteignakreppu og hækkandi atvinnuleysis meðal ungs fólks.
Þjóðin er nú á ákveðnum gatnamótum þar sem hún þarf að sannfæra heiminn um að ris kínverska hagkerfisins sé gott fyrir þróun heimsbyggðarinnar. Á sama tíma þarf flokkurinn að verja stöðu sína og enda áróðursspjótin frá honum oftar en ekki á Bandaríkin og fyrrum óvini kínversku þjóðarinnar.
Kína mun vissulega halda áfram að reyna að enduropna hagkerfið sitt fyrir umheiminum en það eru of mörg dæmi þar sem þjóðernishyggja breytist í andúð og gæti það skemmt fyrir samskiptum framtíðarinnar. Viðhorf almennings endurspegla orðin sem koma frá leiðtogum þeirra og þar sem einstaklingar og fyrirtæki leiða hagkerfisþróunina þá hvílir framtíð þess sannarlega á þjóðernisvoginni.