Bandaríska smásölukeðjan Target hagnaðist um 876 milljónir dala á fjórða ársfjórðungi, frá nóvember 2022 til janúar 2023, eða sem nemur 126 milljörðum króna.
Til samanburðar hagnaðist félagið um 1,54 milljarða dala, um 221 milljarð króna, á sama fjórðungi árin 2021-2022.
Á sama tíma jukust tekjur Target á milli ára um 1,3% og námu 31,4 milljörðum dala á fjórðungnum, en 109 milljörðum dala yfir allt rekstrarárið. Tekjur Target hafa heilt yfir aukist um 30 milljarða dala frá árinu 2019.
Gengi bréfa félagsins hefur lækkað um fjórðung á síðastliðnu ári. Hlutabréfaverð félagsins hefur þó tekið aðeins við sér á árinu 2023 og hækkað um 8% frá áramótum.