Ari Skúlason, formaður Félags starfsmanna fjármálafyrirtækja, segir samanlagðan hagnað viðskiptabankanna skýrast af því hversu lág laun eru í bankakerfinu. Hann segir enn fremur að öfl innan Samtaka atvinnulífsins beiti sér fyrir því að bankamenn fái lægri kjarabætur en aðrir í samningaviðræðum.

Þetta kemur fram í pistli sem Ari birti í dag og heimasíðu SSF. Þar segir hann:

„Það er nokkuð ljóst að stór ástæða fyrir miklum hagnaði bankanna er hversu létt þeir hafa sloppið frá launabreytingum síðustu ára miðað við önnur fyrirtæki.“

Og enn fremur:

„Viðræður okkar hóps við atvinnurekendur um launaliðinn hafa þannig gengið erfiðlega. Hvað SSF hópinn varðar virðast þeir sem eru í fararbroddi í viðræðunum sammála um að bankarnir eigi einu sinni enn að sleppa mun ódýrar frá samningunum en aðrar atvinnugreinar.“

Þá segir Ari að kjaraviðræður Samtaka atvinnulífsins við Breiðfylkinguna svokölluðu snúist um blandaða leið prósentuhækkana og krónutöluhækkana, þar sem laun hinna lægstlaunuðu myndu taka krónutöluhækkunum en aðrir fengju 3-4% hækkun að jafnaði næstu 4 árin.

Eins og fram kemur í pistli Ara þá eru meðallaun í bankakerfinu ríflega milljón á mánuði en formaðurinn segir við félagsmenn sína að nú sé fátt annað að gera en að bíða eftir að niðurstaða fáist í kjaraviðræðum SA og Breiðfylkingarinnar.