Samtök iðnaðarins greina frá því að hagnaður fyrirtækja í byggingu húsnæðis hafi dregist saman um 5,3 prósentustig á síðasta ári. Samkvæmt tölum frá Creditinfo nam hagnaður fyrirtækja í greininni fyrir skatta 5,9% af veltu samanborið við 11,2% árið áður.
Í greiningunni segir að helsta skýringin á þessari lækkun er hærri fjármagnskostnaður ásamt hækkun launa og hækkun á verði aðfanga. Fyrirséð er að enn muni draga úr hagnaði fyrirtækja í greininni í ár sem mun hafa áhrif á fjölda nýrra byggingarverkefna sem ráðist verður í.
Samkvæmt könnun sem Outcome gerði fyrir Samtök iðnaðarins segjast 88% stjórnenda verktakafyrirtækja í íbúðabyggingu að hækkandi fjármagnskostnaður muni leiða til samdráttar í uppbyggingaráformum. Að sögn þeirra verður fjöldi nýrra íbúða 509 samanborið við 1.473 á síðustu tólf mánuðum.
Óverðtryggðir vextir útlána til fyrirtækja hafa einnig hækkað um tæplega 6% frá upphafi árs 2021. Samtökin segja þetta vega þungt gagnvart aðilum í uppbyggingu íbúða þar sem framkvæmdatími er um eða yfir tvö ár en tíminn við byggingu íbúðarhúsnæðis er um 2-3 ár.
Könnunin greinir einnig frá því að 64% svarenda segja markaðsaðstæður vera þannig að mun erfiðara gengur að selja íbúðir nú en fyrir sex mánuðum síðan og segja samtökin þetta hafa áhrif á vilja verktaka til að fara út í ný verkefni.