Hagnaður eftir skatta hjá Eimskip nam 8,4 milljónum evra á fyrri helmingi árs sem er lækkun frá 29,5 milljónum á sama tímabili í fyrra. Mun það vera um 71,5% lækkun á milli ára.
EBITDA félagsins nam 37,7 milljónum evra á fyrri helmingi árs samanborið við 66,2 milljónir evra á sama tímabili síðasta árs, sem er lækkun um 28,4 milljónir evra. Mun það vera 78% lækkun á milli ára.
Rekstrarkostnaður nam 367,8 milljónum evra og hækkaði þannig um 2,7% eða 9,8 milljónir evra samanborið við fyrstu sex mánuði síðasta árs. Á sama tíma drógust tekjur félagsins saman um 4,4% og námu 405,5 milljónum evra.
Í uppgjörinu segir að afkoma félagsins á öðrum ársfjórðungi hafi verið ágæt miðað við lítils háttar minni eftirspurn á Íslandi og fjögurra vikna verkfall í Færeyjum á meðan afkoma alþjóðlegu flutningsmiðlunarinnar var góð. Áætluð neikvæð EBITDA áhrif vegna fjögurra vikna verkfalls í Færeyjum eru um 1,8 milljónir evra.
Tekjur héldust stöðugar frá fyrra ári og námu 210 milljónum evra á fjórðungnum. Tekjur af gámaflutningum lækkuðu um 12,9 milljónir evra á meðan tekjur af flutningsmiðlun jukust um 13 milljónir evra
„Lægri afkoma af áætlunarsiglingum skýrist helst af lægri Trans-Atlantic verðum, lítils háttar minnkun í innflutningsmagni ásamt breyttri samsetningu í útflutningi á Íslandi en einnig hafði fjögurra vikna verkfall í Færeyjum töluverð áhrif. Betri afkoma af alþjóðlegri flutningsmiðlun litast af hærri alþjóðlegum flutningsverðum, sérstaklega á leiðum tengdum Asíu,“ segir í uppgjörinu.
EBITDA Eimskips á öðrum fjórðungi nam 23,5 milljónum evra samanborið við 34,3 milljónir evra á öðrum ársfjórðungi í fyrra en félagið segir að annar ársfjórðungur 2023 hafi verið afar sterkur.
Hagnaður eftir skatta á öðrum ársfjórðungi nam 7,9 milljónum evra samanborið við 17,0 milljónir evra fyrir sama tímabil árið 2023.
„Afkoma annars ársfjórðungs 2024 var ágæt og við sáum umsvif í rekstrinum aukast töluvert í kjölfar krefjandi fyrsta ársfjórðungs. EBITDA fjórðungsins nam 23,5 milljónum evra sem er lækkun um 10,8 milljónir frá fyrra ári. Lækkunina má nánast alfarið rekja til lakari afkomu af rekstri gámasiglingakerfisins þar sem tekjur lækkuðu vegna lægri meðalflutningsverða og minnkunar í magni, á sama tíma og rekstrarkostnaður siglingakerfisins var svo til óbreyttur frá fyrra ári. Afkoman af gámasiglingakerfinu er hins vegar mun betri en hún var á fyrsta ársfjórðungi,” segir Vilhelm Már Þorsteinsson forstjóri Eimskips í uppgjörinu.
Vilhelm segir jafnframt að Eimskip hafi lagt ríka áherslu á kostnaðaraðhald, en verðbólguþrýstingur og launahækkanir undanfarinna ára hafa gert það að verkum að aðhaldsaðgerðir okkar hafa fyrst og fremst dregið úr kostnaðarhækkunum í stað þess að stuðla að lægri heildarkostnaði.
„Á tekjuhliðinni var ánægjulegt að sjá útflutningsmagn frá Íslandi aukast á milli ára en vegna breyttrar samsetningar farms lækkaði meðalflutningsverð lítillega. Á hinn bóginn var samdráttur í ákveðnum vöruflokkum í innflutningi til Íslands en þar ber helst að nefna bíla og byggingarvöru á sama tíma og vöruflokkar á borð við matvæli og aðrar neysluvörur héldust stöðugir í magni. Það var vissulega viðbúið að sjá samdrátt í þessum vöruflokkum í ljósi langvarandi tímabils hás vaxtastigs á Íslandi, en við erum vongóð um að Seðlabankinn hefji slökun á peningastefnunni áður en þessi minnkun í eftirspurn breiðist yfir í aðra vöruflokka sem gæti valdið óþarflega harðri lendingu hagkerfisins,” segir Vilhelm.
Að sögn Vilhelms eru alþjóðlegir skiptaflutningar enn mjög sveiflukenndir en flutningsverð hækkaði á öðrum ársfjórðungi.
„Hækkanirnar má einkum rekja til ástandsins við Rauðahafið, sem hefur takmarkað umferð flutningaskipa um Súez-skurðinn, ásamt því sem stór og mikilvæg hagkerfi tóku við sér. Þessi háu alþjóðlegu verð, samhliða magnaukningu, stuðluðu að góðri rekstrarniðurstöðu í alþjóðlegu flutningsmiðluninni á fjórðungnum þar sem afkoman var svipuð og á síðasta ári en töluvert betri en á fyrsta ársfjórðungi þessa árs.”
Vilhelm segir þriðja ársfjórðung fara vel af stað hjá Eimskip og segir hann að horfur séu almennt góðar.
„Við erum bjartsýn á að afkoman verði betri en á öðrum ársfjórðungi. Við gerum ráð fyrir auknu útflutningsmagni frá Íslandi í kjölfar nýs fiskveiðiárs í september en áfram ríkir óvissa um þróun íslenska hagkerfisins. Makrílveiðar fóru hægt af stað í Færeyjum sem hefur haft neikvæð áhrif á útflutningsmagn frá Færeyjum síðustu vikur en á sama tíma hefur útflutningur á ferskum hvítfiski og laxi verið góður.“