Hagnaður kísilmálmverksmiðju Elkem á Íslandi nam 3,2 milljörðum árið 2023, samanborið við 15 milljarða hagnað árið 2022, sem var metár. Tekjur drógust þá saman um rúma 10 milljarða og námu 36,4 milljörðum í fyrra.
Í skýrslu stjórnar segir að markaðsaðstæður hafi veikst töluvert á árinu þar sem heimsmarkaðsverð á kísiljárni lækkaði um 40% milli ára en á sama tíma hélst markaðsverð hráefna hátt meginþorra árs. Félagið hafi þó nýtt sér veikari markaðsaðstæður til að fara í viðhaldsverkefni. Í lok árs 2023 hafi síðan afhending raforku verið skert og stóðu þær skerðingar yfir til febrúar 2024.
Búist er við að markaðsaðstæður verði áfram krefjandi í ár en framtíðarhorfur séu þó bjartar.