Norska ríkisolíufyrirtækið Equinor, sem hét áður Statoil, skilaði 17,7 milljarða dala hagnaði eða sem nemur 2.430 milljörðum íslenskra króna, á öðrum ársfjórðungi. Afkoma félagsins þrefaldaðist á milli ára sem skýrist einkum af hækkandi gasverði og aukinni framleiðslu félagsins eftir innrás Rússa í Úkraínu.

Stjórn Equinor leggur til að greiddir verða út 3 milljarðar evra með sérstakri arðgreiðslu til hluthafa. Norski ríkissjóðurinn á 67% hlut í félaginu.

Equinor segist hafa aukið gasframleiðslu um 18% vegna aukinnar eftirspurnar í Evrópu eftir skerðingar Rússlands að undanförnu.

Sjá einnig: Gasverð í hæstu hæðum.

Gasverð hefur hækkað um þriðjung frá síðasta mánuði og er nú ríflega tífalt hærra en meðalverð á síðasta áratugnum 2010-2019.