Orkuveita Reykjavíkur (OR) skilaði 4,9 milljarða króna hagnaði af rekstri á fyrri hluta ársins 2025, samanborið við 4,3 milljarða á sama tíma í fyrra.
Þrátt fyrir jákvæðan rekstur var heildarafkoma samstæðunnar hins vegar neikvæð um 4 milljarða króna, á meðan hún var jákvæð um 5,8 milljarða á fyrri hluta árs 2024.
Af ársreikningi félagsins að dæma er helsta skýringin á þessari neikvæðu heildarafkomu óhagstæðar gengisbreytingar sem höfðu neikvæð áhrif á fjármagnstekjur og -gjöld.
OR rekur hluta starfsemi í dollurum og evrum, meðal annars Orku náttúrunnar og Carbfix, og gengissveiflur fara beint í heildarafkomuna en neikvæðu áhrifin voru 8,9 milljarðar í heildina.
Heildareignir stóðu í 508,4 milljörðum króna í lok tímabilsins samanborið við 509,9 milljarða í árslok 2024.
Eigið fé lækkaði í 255,3 milljarða úr 265,7 milljörðum, meðal annars vegna neikvæðrar heildarafkomu og arðgreiðslna.
Vaxtaberandi skuldir voru bókfærðar um 208 milljarða króna og vaxtagjöld og verðbætur námu 8,1 milljarði á fyrri hluta ársins.
„Háir vextir af lánum til fjárfestinga setja áfram mark sitt á afkomu samstæðunnar en viðræður standa yfir um hagstæða fjármögnun þeirra fjölbreyttu grænu verkefna sem Orkuveitan hefur á prjónunum,“ segir í tilkynningu frá OR.
Lausafjárstaða var sterk með 20,6 milljarða í handbæru fé, 14,4 milljarða í bundnum innstæðum og verðbréfum og 15,2 milljarða í ónotuðum lánalínum, eða samtals 50,2 milljarða króna.
Tekjur á fyrri helmingi ársins skiptust þannig: rafmagn 14,0 milljarðar, heitt vatn 10,2 milljarðar, kalt vatn 4,4 milljarðar, fráveita 2,05 milljarðar og aðrar tekjur 3,7 milljarðar króna.
Í fréttatilkynningu frá OR segir að veigamesta skýring samdráttar tekna á 2. ársfjórðungi eru minni tekjur hitaveitunnar, sem er umfangsmesti veiturekstur innan samstæðunnar.
Nauðsynlegt er þó að halda áfram að afla aukins forða svo hitaveitan geti mætt vaxandi álagstoppum
Aðalfundur samþykkti 6,5 milljarða króna arð, þar af voru 3,25 milljarðar greiddir í júní og aðrir 3,25 milljarðar færðir sem skammtímaskuld í lok júní. Reykjavíkurborg á 93,5% hlut í OR á móti 5,5% hlut Akraneskaupstaðar og 0,9% hlut Borgarbyggðar.
Þá endurgreiddi Landsnet 450 milljónir króna í aflgjald eftir úrskurði, sem lækkaði flutningskostnað á árinu. OR og Norðurál gerðu einnig nýjan raforkusölusamning til allt að fimm ára í apríl 2025 og drógu til baka mál fyrir gerðardómi.
Ljósleiðarinn er að fullu í eigu OR og rekur samkeppnisrekstur á fjarskiptamarkaði.
Tekjur færast við afhendingu þjónustu og starfsemin fellur undir „Önnur starfsemi“ ásamt móðurfélaginu og Carbfix.
Carbfix-verkefnin eru að fullu í eigu OR í gegnum Eignarhaldsfélag Carbfix ohf., Carbfix hf. og Coda Terminal hf.
Verkefnin snúast um kolefnisföngun og förgun og fjárfestingar í „Önnur starfsemi“ námu rúmum þremur milljörðum króna á fyrri hluta ársins.
Veitur og orkusala/framleiðsla skiluðu jákvæðri EBIT-afkomu en „Önnur starfsemi“, þar á meðal Ljósleiðarinn og Carbfix, var með neikvætt EBIT upp á 0,9 milljarða króna samanborið við neikvæða afkomu upp á 0,77 milljarða á sama tímabili í fyrra.
Í uppgjörinu segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri að það sé góður gangur í þeim grænu uppbyggingarverkefnum sem Orkuveitan stendur fyrir.
Á fyrri hluta þessa árs var það stóra skref stigið að nú er starfsemi Hellisheiðarvirkjunar Orku náttúrunnar nánast kolefnissporlaus og skilar það eitt og sér um 10% af markmiðum Íslands í loftslagsmálum. Binding Carbfix við virkjunina er ekki bara á koldíoxíði frá heldur líka brennisteinsvetni sem sparar rekstrinum stórar fjárhæðir. Þá eru hafnar rannsóknir á hugsanlegri nýtingu vindorku við Dyraveg á Mosfellsheiði, frekari jarðhitanýtingu á Hengilssvæðinu og kolefnisbindingu við Þorlákshöfn í Ölfusi.
Það er gott að búa að stöndugum og stöðugum rekstri þegar ráðist er í verkefni af þessu tagi enda eru fjárfestingar í þróun og nýsköpun áhættusamar í eðli sínu; væri niðurstaðan vituð þyrfti ekkert að rannsaka.
Á sama tíma erum við að efla og treysta veitukerfin öll. Uppbygging er talsverð á starfssvæðum okkar. Oft er hún innan um eldri byggð sem er hagstæðara í heildarsamhenginu en er oft dýrt fyrir Veitur.
Við erum sátt við afkomuna á fyrri helmingi ársins og höldum ótrauð áfram að vera aflvaki sjálfbærrar framtíðar.