Rekstur Festi á fjórða ársfjórðungi var umfram áætlanir félagsins er vörusala fjórðungsins nam tæplega 42 milljörðum króna, sem er 19% aukning frá sama tíma árið áður.
Án áhrifa Lyfju, sem varð hluti af samstæðunni í júlí, nam söluaukningin 6,1%.
Framlegð af vöru- og þjónustusölu var 10,3 milljarðar króna og jókst um 26,6%, en framlegðarstigið hækkaði um 1,5 prósentustig í 24,5%.
Laun og starfsmannakostnaður hækkaði um 31,6% milli ára og var 5,2 milljarðar króna en án áhrifa Lyfju var hækkunin 7,6%.
Einnig hafði einskiptiskostnaður vegna 750 milljóna króna stjórnvaldssektar áhrif á rekstrarkostnað og lækkaði EBITDA fjórðungsins.
Þrátt fyrir það hækkaði EBITDA, að undanskilinni sektinni, um 17,8% milli ára. Heildarhagnaður fjórðungsins var 632 milljónir króna, sem er lækkun um 35,2% miðað við sama tímabil 2023. Að teknu tilliti til sektarinnar nam hækkun hagnaðarins 41,7%.
„Rekstur félagsins gekk vel á fjórða ársfjórðungi og fór fram úr væntingum. Ánægjulegt var að fjöldi heimsókna og selt magn jókst í flestum verslunum milli ára ásamt því að góð aukning náðist í seldum eldsneytislítrum. Framlegðarstig styrktist í öllum vöru- og þjónustuflokkum samstæðunnar fyrir utan raftækjasölu og hækkaði heilt yfir um 1,5 prósent milli ára. Framlegð af vöru- og þjónustusölu nam 10.267 millj. kr. og hækkar um 26,6% milli ára,” segir Ásta S. Fjeldsted, forstjóri Festi, í uppgjörinu.
Á árinu 2024 var heildarhagnaður Festi rúmir 4 milljarðar sem er aukning um 16,9% frá árinu áður. Heildarafkoma félagsins nam 6,4 milljörðum, að stórum hluta vegna endurmats á fasteignum félagsins sem nam 2,4 milljörðum. Eigið fé félagsins var 43,5 milljarðar í árslok og eiginfjárhlutfall 37,9%, samanborið við 37,3% árið áður.
EBITDA ársins nam 12,5 milljörðum en hefði numið 13,9 milljörðum ef rekstur Lyfju hefði verið inni allt árið og ef sekt stjórnvalda hefði ekki haft áhrif. Félagið gerir ráð fyrir að EBITDA 2025 verði á bilinu 14,4 til 14,8 milljarðar.
„Horfandi fram á veginn er ljóst að félagið okkar er að stækka og eflast. Áhersla verður áfram á að bæta tekjuvöxt, halda aftur af kostnaði og skerpa á skilvirkni til að auka framlegð og lækka einingakostnað. Fjölmörg tækifæri skapast með innkomu Lyfju í samstæðuna sem unnið verður að á árinu samhliða gríðarmörgum öðrum spennandi verkefnum sem gaman verður að segja frá þegar líður á árið. Við erum stolt af þeim árangri sem náðist á síðasta ári og þökkum það fyrst og fremst tryggum viðskiptavinum og einstöku starfsfólki okkar um land allt,“ segir Ásta.
Í uppgjörinu kemur fram að stjórnendur félagsins eru ánægðir með niðurstöður ársins og telja að reksturinn sé í takt við markmið og langtímastefnu félagsins. Lyfja hefur styrkt samstæðuna og aukið fjölbreytni í tekjustraumum.
„Við hófum formlegt söluferli í lok september á Olíudreifingu sem nú stendur yfir en Festi á 60% hlut á móti Olís. Í byrjun desember var þremur aðilum boðið að halda áfram í söluferlinu,” segir Ásta í uppgjörinu.