Rekstur Festi á fjórða árs­fjórðungi var um­fram áætlanir félagsins er vöru­sala fjórðungsins nam tæp­lega 42 milljörðum króna, sem er 19% aukning frá sama tíma árið áður.

Án áhrifa Lyfju, sem varð hluti af sam­stæðunni í júlí, nam sölu­aukningin 6,1%.

Fram­legð af vöru- og þjónustusölu var 10,3 milljarðar króna og jókst um 26,6%, en fram­legðar­stigið hækkaði um 1,5 pró­sentu­stig í 24,5%.

Laun og starfs­manna­kostnaður hækkaði um 31,6% milli ára og var 5,2 milljarðar króna en án áhrifa Lyfju var hækkunin 7,6%.

Einnig hafði ein­skiptis­kostnaður vegna 750 milljóna króna stjórn­valds­sektar áhrif á rekstrar­kostnað og lækkaði EBITDA fjórðungsins.

Þrátt fyrir það hækkaði EBITDA, að undan­skilinni sektinni, um 17,8% milli ára. Heildar­hagnaður fjórðungsins var 632 milljónir króna, sem er lækkun um 35,2% miðað við sama tíma­bil 2023. Að teknu til­liti til sektarinnar nam hækkun hagnaðarins 41,7%.

„Rekstur félagsins gekk vel á fjórða árs­fjórðungi og fór fram úr væntingum. Ánægju­legt var að fjöldi heimsókna og selt magn jókst í flestum verslunum milli ára ásamt því að góð aukning náðist í seldum elds­neytislítrum. Fram­legðar­stig styrktist í öllum vöru- og þjónustu­flokkum sam­stæðunnar fyrir utan raf­tækjasölu og hækkaði heilt yfir um 1,5 pró­sent milli ára. Fram­legð af vöru- og þjónustusölu nam 10.267 millj. kr. og hækkar um 26,6% milli ára,” segir Ásta S. Fjeld­sted, for­stjóri Festi, í upp­gjörinu.


Á árinu 2024 var heildar­hagnaður Festi rúmir 4 milljarðar sem er aukning um 16,9% frá árinu áður. Heildar­af­koma félagsins nam 6,4 milljörðum, að stórum hluta vegna endur­mats á fast­eignum félagsins sem nam 2,4 milljörðum. Eigið fé félagsins var 43,5 milljarðar í árs­lok og eigin­fjár­hlut­fall 37,9%, saman­borið við 37,3% árið áður.

EBITDA ársins nam 12,5 milljörðum en hefði numið 13,9 milljörðum ef rekstur Lyfju hefði verið inni allt árið og ef sekt stjórn­valda hefði ekki haft áhrif. Félagið gerir ráð fyrir að EBITDA 2025 verði á bilinu 14,4 til 14,8 milljarðar.

„Horfandi fram á veginn er ljóst að félagið okkar er að stækka og eflast. Áhersla verður áfram á að bæta tekju­vöxt, halda aftur af kostnaði og skerpa á skil­virkni til að auka fram­legð og lækka eininga­kostnað. Fjölmörg tækifæri skapast með inn­komu Lyfju í sam­stæðuna sem unnið verður að á árinu sam­hliða gríðar­mörgum öðrum spennandi verk­efnum sem gaman verður að segja frá þegar líður á árið. Við erum stolt af þeim árangri sem náðist á síðasta ári og þökkum það fyrst og fremst tryggum við­skipta­vinum og einstöku starfs­fólki okkar um land allt,“ segir Ásta.

Í upp­gjörinu kemur fram að stjórn­endur félagsins eru ánægðir með niður­stöður ársins og telja að reksturinn sé í takt við mark­mið og langtíma­stefnu félagsins. Lyfja hefur styrkt sam­stæðuna og aukið fjöl­breytni í tekju­straumum.

„Við hófum form­legt sölu­ferli í lok septem­ber á Olíu­dreifingu sem nú stendur yfir en Festi á 60% hlut á móti Olís. Í byrjun desember var þremur aðilum boðið að halda áfram í sölu­ferlinu,” segir Ásta í upp­gjörinu.